Verkvest: Teknar voru rangar ákvarðanir sem ollu skipverjum alvarlegum skaða

Verkalýðsfélag Vestfirðinga segir í tilkynningu um dóm Héraðsdóms Vestfjarða, sem féll í fyrradag, að skipverjum á Júlíusi Geirmundssyni ÍS sé mjög létt við að málinu sé að ljúka, en óvissan hafi verið skipverjum þungbær.

Skipstjóri Júlíusar Geirmundssonar ÍS var ákærður fyrir brot á sjómannalögum og játaði hann sök. Honum er gert að greiða sekt og missir skipstjórnarréttindi í fjóra mánuði.

Útgerðin ábyrg fyrir skaða skipverja

Verkalýðsfélag Vestfirðinga segir að það hafi ekki enn upplýsingar frá fyrstu hendi varðandi málið, en að því gefnu „að upplýsingar félagsins séu réttar er allur vafi tekinn af varðandi réttarstöðu þeirra skipverja sem staðið hafa í veikindum í veiðiferðinni og í kjölfar hennar, en útgerð er ábyrg fyrir ákvörðunum skipstjóra valdist skaði af.“ Dómurinn hefur ekki enn verið birtur.

Þá segir í tilkynningunni að heilsufar flestra skipverja hafi verið að þokast til betri vegar, „en þeir sem enn glíma við veikindi eru nú í vissu um að þeir haldi launum til jafns við það sem þeir hefðu haft væru þeir vinnufærir og heilir heilsu.“

Væg refsing vekur undrun

„Skipverjar sem hafa haft samband við félagið eru mjög undrandi á því að þeir hafi gengið gegnum tímabil þar sem þeir töldu lífi og heilsu ógnað, og sjá svo að refsingin sem skipstjórinn er dæmdur til sé ekki ólík refsingu fyrir samlokustuld í Krónunni. Það sem minna er í dagsljósinu er sú þjáning sem skipstjórinn hefur orðið fyrir vegna sinna mistaka, ekki ásetningsbrots, heldur mistaka og dómgreindarleysis. Í þessu máli hafa allir tapað og er það von félagsins að íslenskir sjómenn þurfi aldrei að upplifa slíkt um ókomna tíð.“

Rangar ákvarðanir ollu skaða

„Nú er liðið vel á þriðja mánuð frá því þessari örlagaríku veiðiferð lauk og þrátt fyrir batnandi heilsu flestra skipverja á það ekki við um alla, en of snemmt er að segja til um hvort allir nái fullri heilsu á ný. Allir sem að málinu koma gera sitt besta til að lágmarka þann skaða sem hlotist hefur, en ekki er hægt að líta framhjá því að hvorki er um slys né veikindi af eðlilegum orsökum að ræða. Teknar voru rangar ákvarðanir sem ollu skipverjum alvarlegum skaða. Samfélagslegur kostnaður af þessu er nú þegar orðinn gífurlegur sem og fjárhagsskaði útgerðar. Álitshnekkur fyrir svæðið í heild sinni verður ekki metinn til fjár.“

DEILA