Súðavíkurhöfn dýpkuð

Framkvæmdir hófust aftur við dýpkun Súðavíkurhafnar á nýju ári, 2021. Björgun varð frá að hverfa með dýpkunarskipið Dísu í haust þar sem efni reyndist of gróft eða þétt. Skipið réði því ekki við efnistökuna, en talsvert rif hefur verið að safnast undanfarin ár fyrir utan og innan norðurgarð hafnarinnar, gróft efni sem talið er að berist utan af Súðavíkurhlíð. Mikið hefur breyst eftir liðinn vetur til hins verra og hafði Landhelgisgæslan ýmislegt við það að athuga þegar þeir voru við mælingar á Baldri í vetur, en uppgefin dýpt hafnar var að vonum ekki til staðar og virkuðu mælingartæki ekki þegar reynt var í höfninni.

Ísar ehf og Þotan ehf sjá um dýpkun Súðavíkurhafnar, Ísar með langarma gröfu og tekur efnið næst höfninni til að byrja með og Þotan sér um að aka efninu inn að Langeyri þar sem því er skilað sem næst fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Talsverð umferð vegna efnisflutninga verður því um sinn milli Súðavíkurhafnar og Langeyrar.

Vonir standa til þess, segir Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri, að unnt verði að koma innsiglingu og viðlegukanti í viðunandi horf á þessum fyrstu mánuðum ársins. Upphaflega átti að kalla til dýpkunarskipið Pétur mikla, en hann hefur verið fastur í öðrum verkefnum.

DEILA