Smávirkjun í Breiðadal í undirbúningi

Orkuvinnslan ehf hefur fengið samþykki bæjarstjórnar Ísafjarðabæjar fyrir því að gera deiliskipulag fyrir svæði undir smávirkjun neðan Breiðadalsvirkjunar í landi Veðrarár II, Breiðadal.

Fyrir rekur Orkuvinnslan virkjun „Breiðadalsvirkjun“ á jörðinni. Fyrirhuguð virkjun mun verða fyrir neðan stöðvarhús Breiðdalsvirkjunar og nýtir það vatn sem rennur frá henni. Einnig er fyrirhugað að nýta vatn úr Breiðadalsá og Þverá til viðbótar.
Uppsett afl virkjunarinnar verður allt að 200 kW.

Samkvæmt skipulagslögum skal við upphaf vinnu við gerð skipulagsáætlunar taka
saman lýsingu á verkefninu þar sem m.a. er skýrt hvernig staðið verði að skipulagsgerðinni.

Lýsingin verður kynnt og send til umsagnar. Að því loknu verður skipulagstillaga send til bæjarstjórnar og afgreidd sem tillaga sem fer aftur í almenna kynningu. Að henni lokinni verður farið yfir umsagnir og athugasemdir og bæjarstjórn tekur málið til endanlegrar afgreiðslu.

Gert er ráð fyrir að skipulagsvinnan taki yfir um 6 mánaða tímabil.

DEILA