Ríkissjóður ætlar að verja 800 m.kr. til að styrkja sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda

Í fjárlögum ársins í ár er gert ráð fyrir að 800 m.kr. verði varið til þess að styrkja sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda.

Styrkirnir eru liður í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar.

Áður hafði verið ákveðið að 200 m.kr. yrði varið til þessa vegna framkvæmda síðasta árs. Heildarfjárhæð sem nú er til úthlutunar nemur því um 1 milljarði króna.

Ráðgert er að opna fyrir umsóknir fyrir lok janúar nk.

Skilyrði er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Jafnframt er skilyrði að kostnaður við styrkhæfa fráveituframkvæmd hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.

Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir.
Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastsmengun berst til sjávar með ofanvatni.

DEILA