Ríkið styrkir áætlunarflug til Vestmannaeyja

Air Iceland connect hefur verið sameinað Icelandair.

Samgönguráðuneytið hefur gert samning við Icelandair um áætlunarflug til Vestmannaeyja tvisvar í viku og mun verja 15 milljónum króna til þess. Það mun duga fyrir styrk til áætlunarflugs næstu 5 mánuði samkvæmt því sem fram kemur í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta.

Þremur flugfélögum var boðið að gera boð í áætlunarflugið, en ekki var um formlegt útboð að ræða.

Í svarinu segir:

„Í verðkönnun ráðuneytisins var leitað hagstæðasta verðs í flug með farþega og vörur á flugleiðinni Reykjavík-Vestmannaeyjar-Reykjavík til að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á þessari flugleið á meðan markaðslegar forsendur fyrir slíku flugi eru ekki til staðar. Sú lágmarksþjónusta er skilgreind sem tvær ferðir í viku, fram og til baka.

Verðtilboð tveggja flugrekenda, Flugfélagsins Ernis og Icelandair, uppfylltu kröfur verðkönnunarinnar. Ákveðið var að ganga til samninga við Icelandair á grundvelli verðtilboðs félagsins, sem var lægst gildra tilboða, eða 380 þúsund kr. á hverja ferð, fram og til baka.

Greiðsla ráðuneytisins fyrir hverja ferð nemur mismuni þessa verðs og tekna flugrekandans af seldum farmiðum og frakt. Kostnaður ráðuneytisins vegna þessa verkefnis getur numið allt að 15 milljónum kr.“

Áætlunarflug til Vestmannaeyja hefur ekki verið styrkt frekar en til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Flugfélagið Ernir hefur verið með áætlunarflug til Vestmannaeyja en eftir að kórónaveirufaraldurinn kom til landsins var ekki lengur grundvöllur fyrir því og því var hætt í september síðastliðinn. Töldu stjórnendur félagsins ekki ráðlagt að halda inn í veturinn að óbreyttu en sögðu að félagið væri í stakk búið til að hefja flug aftur til Eyja án mikils fyrirvara og að fylgst verði náið með stöðunni í þjóðfélaginu og í Eyjum næstu misserin.

Ríkisstyrktar áætlunarflugleiðir voru boðnar út í haust og missti Flugfélagið Ernir flugleiðirnar á Vestfjörðum til Norlandair. Það útboð og ákvarðanir Vegagerðarinnar voru kærðar til kærunefndar útboðsmála og er kæran óútkljáð.

 

DEILA