Merkir Íslendingar – Örn Snorrason

Örn Snorrason, kennari og rithöfundur, fæddist á Dalvík þann 31. janúar 1912.

Foreldrar hans voru Snorri Sigfússon, skólastjóri á Flateyri árin 1912 – 1929,  og síðar námsstjóri Norðurlands með búsetu á Akureyri og k.h., Guðrún Jóhannesdóttir húsfreyja.

 

Snorri var sonur Sigfúsar Jónssonar, bónda á Brekku og Grund í Svarfaðardal og k.h., Önnu Sigríðar Björnsdóttur húsfreyju. Guðrún var dóttir Jóhannesar Jónssonar Reykjalín, bónda á Þönglabakka og Kussungsstöðum í Þorgeirsfirði, og k.h., Guðrúnar Sigríðar Hallgrímsdóttur húsfreyju.

Snorri Sigfússon skrifaði æviminningar í þremur bindum -Ferðin frá Breku- og eru Flateyrarárin í öðru bindinu.

Örn var elstur sjö systkina sem öll eru látin. Hann flutti til Flateyrar á fyrsta ári, er faðir hans varð skólastjóri þar og síðan með fjölskyldunni til Akureyrar árið 1930, þá nemandi í MA.

 

Örn kvæntist árið 1945 Ragnheiði Hjaltadóttur frá Húsavík f. 1. janúar 1920, sem hann missti 1963 frá tveimur börnum þeirra, Hjalta þá 17 ára og Guðrúnu 10 ára.

 

Örn lauk stúdentsprófi frá MA 1933, las guðfræði við HÍ í tvö ár og lauk cand.phil.-prófi þaðan 1934, lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1936 og sótti kennaranámskeið í Askov.

 

Örn var lengst af kennari við Barnaskólann á Akureyri, á árunum 1937 til 1960, kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1960-66, Barnaskólann á Hellu á Rangárvöllum í eitt ár og loks við Álftamýrarskóla í Reykjavík 1967-70. Þá var hann prófarkalesari á Vísi og síðar á DV 1970-84. Hann kenndi einnig við MA og var prófdómari þar um árbil.

 

Örn orti töluvert á sínum yngri árum, oft hnyttin tækifæriskvæði, en sum kvæða hans eru enn sungin í Menntaskólanum á Akureyri. Hann notaði þá oftast dulnefnið Aquila sem merkir örn á latínu.

 

Örn sendi frá sér Nokkrar réttritunarreglurÍslandssöguvísur og ýmsar barna- og drengjabækur. Auk þess birtust eftir hann smásögur, greinar og ljóð í blöðum og tímaritum. Þá var hann afkastamikill þýðandi, þýddi fjölda barnabóka og m.a. bækurnar um Paddington.

Gamantregi er úrval skáldskapar Arnar, gamanmál og tregablandin ljóð og frásagnir, sett saman 1932-1969.

 

Örn var félagi í Kantötukór Akureyrar og í Karlakórnum Geysi á Akureyri og fór utan með utanfararkór Sambands íslenskra karlakóra 1946.

 

Örn Snorrason lést þann 1. október 1985 í Reykjavík.

Strákurinn og húmoristinn

 

Sveinbjörn Finnsson (1911 – 1993) frá Hvilft í Önundarfirði, æskuvinur að vestan og samstúdent, skrifar m.a. í minningargrein í Morgunblaðið, 10. október 1985:

„Strákapör hans í æsku voru með ólíkindum margbreytileg. Lipurðin var einstök, sama hvort hann fór jakahlaup að vetri og sást þá ekki fyrir um dýpi eða klifraði á húsþökum, settist á skorsteina og hálfsvældi út heimilisfólk, strákaskaranum sem á horfði en minna þorði, til óblandinnar ánægju. Allt var honum fyrirgefið, enda hvers manns hugljúfi, hjálpsamur og góðfús. Ennþá lifa af honum sagnir vestra.“ Fyrir hönd eftirlifandi samstúdenta Arnar þakkaði Sveinbjörn „… samfylgd hans, sem var konungur kátínu og gleði í okkar hópi.“

Strákapörum púkatímans  á Flateyri  lýsir Örn Snorrason í bókunum, -Þegar við Kalli vorum strákar- og -Enn um okkur Kalla-

Anna Snorradóttir (1920 – 2009) skrifaði um bróður sinn látinn, Morgunblaðið 10. október 1985,:

„Örn átti marga strengi í brjósti, stóra hörpu, sem hann lék á bæði í gleði og sorg. Nemendum hans þótti vænt um hann og sýndu honum margvíslegan sóma og tryggð til hinstu stundar. Það var fátt, sem honum þótti vænna um en þessi órofa elskusemi gamalla nemenda. Hann skrifaði sig barnakennara og sagði eitt sinn, að líklega væri hann eini barnakennari landsins, hinir væru allir grunnskólakennarar. Kannski hefir honum þótt nafnið fallegt og vænna um börnin heldur en stofnunina.“

Örn Snorrason og nemendur hans í Barnaskólanum á Akureyri árið 1944.

Anna Snorradóttir (1920 – 2009)

skrifaði um bróður sinn látinn, Morgunblaðið 10. október 1985

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA