Mamma og flöskuskeytið

Æ, ég hefði ekki átt að lesa þessa bók aftur því minningin er betri. Hvursu oft hefur maður ekki lent einmitt í þessu. Eitthvað sem maður upplifði í æsku eða fyrir einhvurju síðan stenst bara ekki væntingar einhverju síðar. Mér ditti t.d. ekki í hug að horfa á eina einustu mynd með Trinitý bræðrum í dag. Fyrir þá sem ekki muna þær snildarræmur þá voru þetta svona gamansamar hasarmyndir með hinum ólíku Trinitý bræðrum. Annar var ljóshærður sjarmör túlkaður af Terence Hill hinn stór og mikill bangsi sem stórleikarinn Bud Spencer túlkaði. Þessar myndir sá maður sko á Betaspólum í myndbandstæki sem foreldrar mínir áttu ásamt tveimur öðrum fjölskyldum. Tækið var látið ganga millum fjölskyldna sem hafði nútímatækið í heila viku og þá horfði ég á Trinity bræða mynd á hverjum einasta degi, oft bara þá sömu. Þeir voru svo geggjaðir mar‘. Nú er þetta bara svolítið einsog krakkarnir segja í dag, sumt er betur geymt en streymt.

Samt freistast maður oft til að endurnýja kynnin við listaverk er hreyfðu við þér, einsog ónefndur leikhúsmaður segir stundum. Ég stend sjálfan mig mjög oft af því enda er ég ekki vanur að huxa fyrst og framkvæma svo heldur akkúrat öfugt. Þetta gerði ég einmitt núna á Þorláksmessu þegar ég tók fram bókverk sem ég hef ekki lesið í ein 45 ár og reyndar einum degi betur. Já, ég nefnilega fékk bókina í jólagjöf á Attfangadag nær ég var fjögurra vetra. Man reyndar ekkert frá hverjum bókin var en ég man hinsvegar það sem gerðist þar á eftir. Reyndar var það ekki oft sem ég fékk bók í jólagjöf enda var ég voðalítill bókapúki. Ég var miklu meira í því sem Dengsi Ladda sagði gjarnan við sinn Hemma, alltaf í boltanum. Ykkur að segja þá varð ég ekki læs fyrr en ég var tíu vetra.

Bókverkið sem ég fékk Attfangadaginn ´75 heitir Flöskuskeytið og er eftir Þröst J. Karlsson. Var reyndar ekki alveg nýtútkomin þá því svo skemmtilega vill til að hún kom út árið sem ég fæddist 1971. Bókverkið fjallar í stuttu máli um músina Nammi og bestu vini hennar þá Lalla bangsa og Gogga páfagauk. Þetta vinatríó ákveður að hressa uppá hversdaginn með því að bregða sér í Álfheima þar sem mennirnir eru jafn litlir og mýs. Þar sem mýs geta ekki flogið þá fara þeir félagar á bátnum hans Namma. Nema hvað og hvað haldiði. Er þeir hafa réttt silgt af stað þá sjá þeir eitthvað fljótandi í sjónum. Þar sem mýs eru sérlega forvitnar þá verður nú að aðgæta þennan fljótandi hlut nánar. Enda var það nú forvitninnar virði því þetta reyndist vera flöskuskeyti og í því var fjársjóðskort. Enn betra var að samkvæmt kortinu þá væri fjársjóðurinn einmitt þar sem þeir væru að fara, í Álfheimum.

Ég verð að viðurkenna að ég mundi bara ekkert eftir innihaldi þessa bókverks er ég las hana nú á Þorláksmessu 2020. Tæpri hálfri öld er hún var fyrst lesin og reyndar bara í þetta eina sinni. Kannski ástæða fyrir því. En afhverju er þessi bók mér svona kær? Flöskuskeytið hefur fylgt mér allar götur síðan og ég hef margsinnis tekið hana fram úr bókahillunni bara til að horfa á hana. Nokkuð sem ég gerði við bækur alla mína æsku enda lærði ég seint að lesa. Staðreyndin var sú að alltaf þegar ég tek Flökuskeytið fram þá líður mér svo vel og stundum fara meira að segja tárin að trylla niður kinnarnar. Það gerist reyndar orðið svolítið oft hjá mér í dag, líklega aldurinn.

Ástæðan fyrir allri þessari vellíðan með bókverkið Flöskuskeytið er í raun sáraeinföld. Það er stundin árið 1975 sem vermir. Er ég hafði opnað Flöskuskeytið sem reyndist vera seinasti óopnaði jólapakkinn minn Attfangadaginn ´75, þá leit ég til mömmu sem hafði einmitt komið sér vel fyrir undir teppi í græna sófanum í stofunni heima. Að vanda brosti hún til þessa glókolls síns svo lyfti hún teppinu og ég skreið í fang hennar með Flöskuskeytið. Svo hóf mamma lesturinn og lauk honum ekki fyrr en stóð ENDIR.

Þó ég muni bara þessa stund en ekki innihald Flöskuskeytisins þá er ég löngu búinn að finna fjársjóðinn. Enda var hann ekki í bókinni heldur var ég sjálfur í fangi fjársjóðsins, móður minnar.

Elfar Logi Hannesson mömmudrengur

DEILA