Listamannalaun: einn á Vestfjörðum fékk styrk

Fyrir helgina var tilkynnt um úthlutun listamannalauna. Samtals var úthlutað um 1 milljarði króna. Aðeins einn umsækjandi búsettur á Vestfjörðum fékk úthlutun. Það er Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur, Ísafirði, sem fékk úthlutað 12 mánaða launum.

Starfslaun listamanna eru 409.580 kr. á mánuði samkvæmt fjárlögum 2021. Um verktakagreiðslur er að ræða.

Þrír aðrir Vestfirðingar fengu úthlutun. Það eru Vilborrg Davíðsdóttir frá Þingeyri sem fékk 9 mánaða laun og Ólína K. Þorvarðardóttir frá  Ísafirði fékk þriggja mánaða laun, báðar úr launasjóði rithöfunda. Þá fékk Halldór Smárason frá ísafirði 12 mánaða laun úr launasjóði tónskálda.

Ekki fengu allir sem sóttu um, alls var sóttum um sex sinnum hærri upphæð en til ráðstöfunar var. Meðal þeirra sem fengu synjun voru Elfar Logi Hannesson og Kómedíuleikhúsið, eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. Kómedíuleikhúsið fékk styrk í fyrra og einnig árið 2003 og hefur því tvisvar fengið úthlutun á 20 ára starfstíma þess.

Stjórn listamannalauna 2018-2021 skipa Bryndís Loftsdóttir, formaður, Hlynur Helgason og Markús Þór Andrésson.

DEILA