Landvernd: hófstilltar samræður mikilvægar

Í gær var sagt frá því að Ferðaklúbburinn 4 x 4 hefði sagt sig úr Landvernd. Í úrsagnarbréfinu segir að stefna Landverndar undanfarin ár hafi verið öfgakennd og markast af harðlínu sem farið hefur langt út fyrir svið náttúrverndar að okkar mati. Sérstaklega er tilgreind yfirlýsing Landverndar vegna Vonarskarðsins „en þar er stefna Landverndar sú að loka skuli ökuleið um örfoka sanda fyrir umferð og á sú stefna Landverndar ekkert skylt með náttúruvernd.“

Landvernd hefur birt svar sitt við úrsögn  Ferðakklúbbsins 4 x 4:

„Megin tilgangurinn með starfi Landverndar er að vinna að verndun náttúru og umhverfis Íslands á landi, í legi og í lofti svo þeim verði sem minnst spillt, okkur og komandi kynslóðum til handa. Þá vilja samtökin stuðla að endurreisn spilltrar náttúru, náttúrugæða og umhverfis með þeim hætti er hæfir sem best náttúrulegum aðstæðum og búsetu í landinu.

Landvernd hefur um ára bil átt samleið með 4×4 um þessi markmið enda hafa 4×4 oft lagt mikilvæg lóð á vogarskálar náttúruverndar. Landvernd vonar að úrsögn 4×4 sé ekki til vitnis um það að þessi mikilvægu samtök útvistarfólks séu að fjarlægst hugmyndir og hugsjónir um verndun íslenskrar náttúru. Stjórn Landverndar harmar úrsögn 4×4 úr Landvernd og vonar að samtökin tvö geti í framtíðnni átt góða samvinnu um náttúruvernd.

Undanfarin 2 ár hefur Landvernd ítrekað óskað eftir fundi með samtökunum 4×4 til að ræða álitmál um samgöngur á hálendinu. Því miður hafa 4×4 ekki sé sér fært að koma til fundar til að ræða þau mál. Boðið stendur að sjálfsögðu enn sem fyrr.

Við náttúruvernd er erfitt að gera svo öllum líki. Því eru hófstillar samræður mikilvægar. Það er leiðarstef í starfsemi Landverndar.“

DEILA