Kampi fær greiðslustöðvun

Kampi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Rækjuverksmiðjan Kampi á Ísafirði hefur fengið greiðslustöðvun til næstu þriggja vikna. Að sögn Jón Guðbjartssonar, stjórnarformanns verður tíminn notaður til þess að vinna að lausn fjárhagsvanda fyrirtækisins. Eigendur munu leggja fyrir kröfuhafa áætlanir sínar og fái þær brautargengi verður sótt um lengri greiðslustöðvun, til tveggja eða þriggja mánaða sem verður notaður til þess að ná samningum. Að sögn Jóns munu hluthafar leggja fram fé í þessum aðgerðum.

Í síðasta mánuði kom óvænt í ljós að fjárhagsstaðan var önnur og mun verri en fram hafði komið í bókhaldi og ársreikningum félagsins og hefur verið unnið að því með nýjum enduskoðanda að komast til botns í því. Um háar fjárhæðir er að ræða.

Jón Guðbjartsson segir að ætlun eigenda sé að ná samningum og greiða niður skuldir. Kampi verður áfram í rekstri meðan á greiðslustöðvun stendur. Hjá fyrirtækinu vinna 42 starfsmenn.

Birnir ehf er stærsti eigandi með um 70% hlutafjár og Hvetjandi á um 10%.

DEILA