Ísafjörður: tilboð í snjómokstur tekin í ágreiningi

Frá Ísafirði. Mynd: isafjordur.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiddi tilboð í snjómokstur á Ísafirði og í Hnífsdal á fundi sínum á fimmtudaginn í síðustu viku. Tilboðin voru opnið 21. desember 2020.

Alls voru 10 bjóðendur og var boðið í nokkra flokka. Samþykkt  var tillaga frá bæjarstjóra um að bæjarstjórn heimili töku tilboða í samræmi við niðurstöðu útboðs.

Samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs var Úlfar Önundarson með hagstæðasta tilboðið í tæki til snjómoksturs og tæki 8-12 tonna eða stærri. Tilboð Vélaþjónustu Vestfjarða ehf  var hagstæðast í hjólaskófu 12 tonn eða stærri og Orkuver ehf bauð best í trailer.

Aðrir sem buðu í einstaka hluta voru Þotan ehf, Búaðstoð ehf, Laugi ehf, Steypustöð Ísafjarðar ehf  og Kubbur ehf.

Ágreinngur varð um afgreiðslu málsins og var það samþykkt með 5 atkvæðum meirihlutans. Þrír bæjarfulltrúar Í listans sátu hjá en Sigurður Jón Hreinsson, Í lista greiddi atkvæði gegn tillögunni. Aðspurður sagðist Sigurður hafa gert það þar sem að hans mati ekki lægi fyrir að það væri hagstæðara fyrir bæjarfélagið að bjóða þessa þjónustu út.

DEILA