Iða Marsibil í prófkjör Framsóknar

Iða Marsibil Jónsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í 2-3 sæti á lista Framsóknar til alþingiskosninga í NV kjördæmi.

Hún segir í tilkynningu um framboðið að margir hafi komið að máli við hana á undanförnum vikum og „nú er svo komið að ég tel mig tilbúna til að taka slaginn fyrir Framsókn.“

Bílddælingur og oddviti Nýrrar Sýnar  

„Ég er fædd  árið 1977 og uppalin á Bíldudal. Að loknum grunnskóla lá leið mín á Laugarvatn þar sem ég sótti nám við Menntaskólann. Nokkru síðar á lífsleiðinni stundaði ég nám við Háskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan sem viðskiptafræðingur árið 2006.

Árið 2014 flutti ég aftur heim til Bíldudals til að taka þátt í uppbyggingu sem orðið hefur á svæðinu síðustu ár og hefur það verið í senn krefjandi og skemmtilegt verkefni.

Ég hef starfað sem skrifstofu- og mannauðstjóri hjá Arnarlaxi síðustu árin en hef viðtæka reynslu úr atvinnulífinu ss. úr sjávarútvegi, landbúnaði og viðskiptum.

Í sveitastjórnarkosningunum 2018 leiddi ég lista Nýrrar Sýnar sem hlaut meirihluta atkvæða og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks sem hafði verið ráðandi í Vesturbyggð um langt skeið. Frá þeim tíma hef ég verið forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð og sit jafnframt í stjórn Vestfjarðastofu. Sveitarstjórnarmálin hafa verið mikill og góður skóli og aukið áhuga minn á frekari stjórnmálaþáttöku. Stjórnmálin eru gríðarlega mikilvæg og eru afl íbúanna til þess að koma á umbótum í samfélaginu. Ég tel mig geta verið góðan fulltrúa samfélagsins í því verkefni.

Ég brenn fyrir málefni landsbyggðarinnar s.s. atvinnumál, samgöngumál og jafnrétti til búsetu. Ég hef fundið mikla samleið með Framsókn þegar kemur að þessum áherslumálum. Íslenskt samfélag er einstakt. Tækifærin eru óþrjótandi og möguleikar einstaklinga og fyrirtækja til vaxtar og velgengni mikil. Með öflugu fólki til forystu í íslensku samfélagi eru okkur allir vegir færir og vil ég leggja mín lóð á þá vogarskál.“

DEILA