Hvað bar hæst hjá Vestfjarðastofu árið 2020?

Árið 2020 hefur um margt verið athyglisvert fyrir Vestfirði. Þrátt fyrir mikil áföll í ferðaþjónustu og um margt erfiðar aðstæður í öðrum atvinnugreinum má samt segja að atvinnulíf svæðisins sé nokkuð sterkt, atvinnuleysi hvergi nærri þeim tölum sem sjá má í öðrum landshlutum og víða vantar fólk til starfa. Staða sveitarfélaganna er þó ekki góð og blikur á lofti í rekstri flestra sveitarfélaga á Vestfjörðum.

Ef rétt er gefið eru á Vestfjörðum gríðarleg tækifæri til verðmætasköpunar í sátt við umhverfi og samfélag. Sjávarútvegur, fiskeldi og ferðaþjónusta eru stoðir vestfirsks atvinnulífs en mikil tækifæri eru einnig í fjölbreyttri matvælaframleiðslu byggðri á afurðum lands og sjávar í bland við hugvit. Til framtíðar verður spennandi að fylgast með þróun á vettvangi þara og þörunga og í orkuframleiðslu.

Hagsmunagæsla

Hagsmunagæsla er eitt af stærstu viðfangsefnum Vestfjarðastofu og er þar um fjölda verkefna að ræða. Stærstu áherslumálin eru raforkumál, fjarskipti, samgöngur, atvinnumál. Stórir áfangar eru nú að nást og í augsýn er ný staða á Vestfjörðum. Dýrafjarðargöngin opnuðu í lok október og endurbygging vegar um Dynjandisheiði hafinn. Sá stóri áfangi náðist einnig á árinu að veglagning í Gufudalssveit getur hafist.

Raforkumál í nokkrum farvegi hvað varðar afhendingaröryggi en afhendingargeta enn of lítil, blikur á lofti varðandi tengipunkt í Ísafjarðardjúpi. Umsögn FV/Vestfjarðastofu um Kerfisáætlun Landsnets gefur gott yfirlit um stöðu raforkumála í fjórðungnum en þar má hvergi slaka á til að hægt verði að nýta þau stóru tækifæri sem eru í augsýn á Vestfjörðum.

Í raforkuspá sem Vestfjarðastofa lét vinna árið 2020 og byggir á sviðsmyndum fyrir svæðið er niðurstaðan sú að á næstu tíu árum verður tvöföldun á orkunotkun á svæðinu ef sviðsmyndin „Vestfirðir í sókn“ gengur eftir:

„Niðurstaðan fyrir raforkunotkun er að í Vestfjörðum í sókn nemi raforkunotkunin um 475 GWh og munar þar mestu um aukna raforkunotkun í kalkþörungavinnslu. Raforkunotkun eykst að sama skapi með auknum fólksfjölda og nemur sú aukning um 45 GWh. Samanborið við raforkuspá er raforkunotkunin um 180 GWh meiri í Vestfjörðum í sókn, árið 2035“. https://www.vestfirdir.is/static/files/Orkumal/6225-001-sky-001-vo4-svidsmyndir-raforkunotkunar-a-vestfjordum.pdf

Unnið er að samgöngu- og jarðgangnaáætlun fyrir Vestfirði og á árinu var unnin öryggisúttekt á Vestfirskum vegum sem innlegg í þá vinnu. Ný samgönguáætlun verður birt á árinu 2021.

Árið hófst með hvelli og snjóflóð féllu á Flateyri og fóru yfir varnargarð. Auk þess leiddi óveður í desember 2019 í ljós mikla veikleika í innviðum einkum á sviði raforkumála en einnig á fleiri sviðum. Í kjölfar þess var óskað eftir greinargerðum um stöðu innviða frá öllum landshlutasamtökum. Vestfjarðastofa tók saman slíka greinargerð fyrir Vestfirði. Í kjölfarið var unnin áætlun um innviðauppbyggingu sem flýtir nokkrum framkvæmdum til dæmis í flutnings- og dreifikerfi raforku á Vestfjörðum.

Sóknaráætlun Vestfjarða

Árið 2019 var unnin ný Sóknaráætlun fyrir Vestfirði þar sem meðal annars er lögð rík áhersla á vöruþróun í starfandi fyrirtækjum, stafræna þróun á svæðinu og að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækja á svæðinu.  Í þeirri starfsáætlun sem hér er lögð fram er lögð áhersla á að verkefni svari áfram  kalli nýrrar Sóknaráætlunar auk þess sem endurskoðun Sóknaráætlunar verður meðal verkefna ársins.

Verkefni Sóknaráætlunar eru meðal annars utanumhald um Uppbyggingarsjóð Vestfjarða og framkvæmd áhersluverkefna. Úthlutun Uppbyggingarsjóðs fyrir árið 2021 var kynnt í lok desember og má finna hér: https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/uthlutun-ur-uppbyggingarsjodi-vestfjarda-1

Fiskeldi – framtíðarsýn

Á árinu hefur mikil vinna verið lögð í greiningar á stöðu fiskeldismála á Vestfjörðum, þróun atvinnugreinarinnar, framtíðarsýn, skoðun á viðhorfum íbúa svæðisins til fiskeldis, stöðu menntunar í fiskeldi og fleira. Greiningarskýrslur verða birtar snemma á nýju ári og í undirbúningi er ráðstefna um fiskeldismál á Vestfjörðum.

Samhliða er gerð könnun á viðhorfum íbúa svæðisins til þeirra samgönguframkvæmda sem eru framundan og væntinga til samfélagsbreytinga í framhaldinu.

Brothættar byggðir

Á Vestfjörðum eru nú þrjú verkefni í gangi undir merkjum Brothættra Byggða,  Áfram Árneshreppur, Öll vötn til Dýrafjarðar og Sterkar Strandir. Brothættar Byggðir er verkefni á vegum Byggðastofnunar sem unnið er í samvinnu við atvinnuþróunarfélag eða landshlutasamtök á hverju svæði og þau sveitarfélög sem um ræðir, en á þessu ári eru starfandi alls sjö slík verkefni.

Þessi verkefni eru mislangt á veg komin og lýkur verkefninu í Árneshreppi á árinu 2021. Árangur af þessum verkefnum má til dæmis sjá í þeim verkefnum sem studd hafa verið svo sem uppbygging við Krossneslaug í Árneshreppi, gerð Tanksins á Þingeyri og áhugaverð verkefni eru að hefjast í Strandabyggð. Í öllum verkefnum eru reglulegir íbúafundir haldnir, aðgerðaáætlun í gangi sem fylgt er eftir og mikill stuðningur við þróun verkefnishugmynda.

Verkefnin eru almennt til þriggja til fjögurra ára og er árlega úthlutað til verkefna á staðnum 5-7 milljónum króna. Vegna Covid 19 var í vor samþykkt í fjáraukalögum 2020  að veita aukalega til úthlutunar í Brothættum byggðum, alls 100 milljónir. Þessari fjárveitingu var skipt þannig, að 60 milljónum var skipt jafnt milli þeirra sjö verkefna sem eru í gangi og 40 milljónir fóru í Öndvegissjóð sem ætlaður var til að styrkja stærri frumkvæðisverkefni. Aukaúthlutun var því um 8,5 milljónir á hverjum stað. Á Vestfjörðum voru því til úthlutunar alls 40.5 milljónir úr þessum sjóðum, það er árlegt framlag og aukaframlag. Og í úthlutun Öndvegissjóðs komu 24,3 mkr til viðbótar.

Mörg áhugaverð nýsköpunarverkefni birtast í þessum úthlutunum sem spennandi verður að fylgjast með vaxa og dafna. Á Þingeyri eru áberandi verkefni sem lúta að menningarmálum og sjáanlegt er af styrkjum að þar er verið að undirbúa þá breytingu sem verður við að Dýrafjarðargöngin opna. Nefna má verkefni eins og Tankinn þar sem verið er að skapa Þingeyri aðdráttarafl til að fá gesti á ferð um svæðið til að gera sér ferð á Þingeyri.  Á Þingeyri er einnig unnið að verkefnum sem lúta að fegrun bæjarins og gestavinnustofum og verkefnum sem auka aðdráttarafl Þingeyrar fyrir ferðamenn.

https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/styrkveitingar-ur-frumkvaedissjod-2020-oll-votn-til-dyrafjardar

Verkefni í Árneshreppi tengjast ferðaþjónustu á svæðinu t.d. bætta aðstöðu við tjaldstæði í Norðurfirði, hönnun á flóttaherbergi í Djúpavík,  uppbyggingu á Baskasetri og sleðaferðir á Ströndum auk uppbyggingar á búningsaðstöðu við Krossneslaug. Meðal nýsköpunarverkefna eru verkefni eins og Djúpavíkurhús sem snýst um að hanna og framleiða smáhýsi í Djúpavík og ullarvinnslu.

https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/afram-arneshreppur-styrkjum-uthlutad

Verkefni í Strandabyggð tengdust einnig nokkur ferðaþjónustu svo sem Vetrarhátíðir í Strandabyggð, Skúlptúraslóð á Hólmavík og bætt ímynd og betra útlit á Galdrasýningunni. Sýslið verkstöð fékk styrk fyrir verkefni sem heitir Matarsmiðjan – tilraunaeldhús og einnig var veittur styrkur til matvælavinnslu á Stóra- Fjarðarhorni. Áhugavert verður að fylgjast með verkefnum Hvatastöðvarinnar, Sauðfjárseturs og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Ströndum.

https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/sterkar-strandir-styrkjum-uthlutad

Eins og áður hefur verið tilgreint þá voru þrjú verkefni á Vestfjörðum fengu að auki stuðning úr Öndvegissjóði Brothættra byggða, alls numu styrkveitingar úr þeim sjóði til verkefna á Vestfjörðum fyrir 24,3 milljónir.

Hafsjór af hugmyndum

Nýsköpunarkeppnin Hafsjór af hugmyndum var sett af stað undir lok ársins 2019 að frumkvæði Sjávarútvegsklasa Vestfjarða sem fékk árið 2016 styrk frá Uppbyggingarsjóði til að efla nýsköpunarvinnu á Vestfjörðum.

Verkefnið var á bið í nokkurn tíma en á árinu 2019 var aftur hafist handa og lagði Vestfjarðastofa Sjávarútvegsklasanum til vinnuframlag til að koma verkefninu af stað.

Annars vegar var um að ræða nýsköpunarstyrki en hins vegar styrki til háskólaverkefna. Hlutu fimm verkefni stuðning í hvoru verkefni og má finna lista yfir verkefnin hér: https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/hafsjor-af-hugmyndum-uthlutun

Þau fimm verkefni sem hlutu stuðning í nýsköpunarhluta verkefnisins fá hvert um sig eina milljón króna til að halda áfram þróun verkefnanna og keppa þá um fimm milljóna verðlaun sem veitt verða vorið 2021. Verkefnin verða unnin í nánu samstarfi við fyrirtækin í Sjávarútvegsklasanum sem leggja meðal annars til aðstöðu, hráefni og þekkingu til að verkefnin geti vaxið og dafnað

Nýsköpun á Vestfjörðum

Vestfjarðastofa hefur lagt mikla áherslu á aðstoð við umsóknagerð í ýmsa sjóði á árinu og hefur það skilað sér í nokkrum fjölda styrkja úr sjóðum sem úthlutað er úr á landsvísu svo sem Matvælasjóði, Orkusjóði, Öndvegissjóði Brothættra byggða og úr verkefnum Byggðaáætlunar.

Það kann að virðast nokkur mótsögn í því að á því herrans ári 2020 sé töluvert afl í nýsköpun á Vestfjörðum og margir sprotar að líta dagsins ljós. Í þessari yfirferð verður sjónum að mestu beint að þeim verkefnum sem Vestfjarðastofa hefur komið að með einum eða öðrum hætti og hafa fengið stuðning úr einhverju af þeim sjóðum sem stofnunin hefur umsjón með sem á árinu 2020 nema tæplega 200 milljónum króna sem fara til fjölbreyttra verkefna svo sem áhersluverkefna, átaksverkefna, verkefna Brothættra byggða og til úthlutunar úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar

Í Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024 er mikil áhersla lögð á nýsköpun og einkum er þar beint sjónum að því að skapa vettvang fyrir nýsköpun með því að ýta undir starfsemi nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðva í sem flestum byggðakjörnum á Vestfjörðum. Í lok ársins 2018 fékk FV/Vestfjarðastofa styrk úr verkefni C1 á Byggðaáætlun til verkefnis sem bar yfirskriftina „Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar á Vestfjörðum“. Í því verkefni átti að gera greiningu á þörf fyrir slíkar miðstöðvar á Vestfjörðum og hvar slík starfsemi væri þegar til staðar, auk þess sem gert var ráð fyrir að renna styrkari stoðum undir starfandi miðstöðvar. Úttektina má finna á vef Vestfjarðastofu – https://www.vestfirdir.is/static/files/Utgefingogn/nyskopunar-og-samfelagsmidstodvar-greiningar-eftir-stodum-lokalokaskjal.pdf

Í úttekt sem Vestfjarðastofa skilaði til Byggðastofnunar og birt var í skýrslu undir lok ársins kemur fram að í starfandi Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvum eru laus pláss fyrir tæplega 60 aðila. Þetta skapar mikil tækifæri fyrir þá sem vilja koma og starfa á Vestfjörðum um lengri eða skemmri tíma og flytja störfin sín með sér.

Auglýst var eftir umsóknum um stuðning við starfandi miðstöðvar og fjórar miðstöðvar studdar með þriggja milljóna króna framlagi hver.  Þessar miðstöðvar eru: Djúpið í Bolungarvík, Blábankinn á Þingeyri, Skrímslasetrið á Bíldudal, Skor á Patreksfirði.

Að auki fékk Strandakjarni á Hólmavík stuðning úr Byggðaáætlun árið 2019 en það verkefni hefur þó verið á bið vegna breytinga hjá Kaupfélagi Strandamanna. Strandabyggð hefur tekið við verkefninu og vonast er til að það verkefni komist af stað og þar verði til öflug nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð.

Auk þeirra nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðva sem styrktar voru í þessu verkefni má sjá að verið er að byggja upp miðstöðvar sem fallið geta undir þetta hugtak víðar á Vestfjörðum til dæmis má nefna Sýslið á Hólmavík, Þörungaklaustur á Reykhólum og Skúrina á Flateyri.

Sambærileg fjármögnun hefur ekki verið tryggð fyrir árið 2021 og er það nokkuð áhyggjuefni því mikill kraftur er í starfsemi þessara miðstöðva og þróun þeirra er mikilvægur þáttur í eflingu byggðakjarna um alla Vestfirði sem og í nýsköpunarstarfi á svæðinu.

Hraðlar og hemlar

Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar skapa vettvang fyrir áhugaverða og skemmtilega viðburði og meðal þeirra eru Startup Westfjords og MakeAthon.

Blábankinn á Þingeyri bauð nú í þriðja sinn til viðburðar sem hafði yfirskriftina Startup Westfjords. Startup Westfjords er nýsköpunar „hemill“ hjá Blábankanum fyrir frumkvöðla og skapara sem þora að fara í aðra átt. „Hemillinn“ var fyrir sprotafyrirtæki, teymi og einstaklinga með nýsköpunarverkefni á öllum stigum, hýst á Þingeyri. Verkefnið er stutt af öflugum fyrirtækjum eins og Kerecis, Arctic Fish, KPMG og 66°North auk stuðnings úr Uppbyggingasjóði Vestfjarða og sjóði Allra vatna til Dýrafjarðar. Auk þess leggur Vestfjarðastofa verkefninu lið.

Matís í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Djúpið – Frumkvöðlaskjól, Arctic Fish og Vestfjarðastofu boðaði til viðburðar sem kallaður er MakeAthon og ætlaður var nemendum Háskólaseturs Vestfjarða og miðaði að því að búa til afurðir úr ónýttu sjávarfangi. Um var að ræða nýsköpunarkeppni sem leggur áherslu á að búa eitthvað til með höndunum til að mæta ákveðinni áskorun eða vandamáli.

Að þessu sinni komu þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn saman til að finna lausnir við eftirfarandi áskorun: Hvernig getum við aukið verðmæti á afgangs hráefni úr sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari?“

Viðburðurinn var í anda svokallaðra hakkaþona en unnið er með hráefni og tilraunir gerðar í eldhúsi með aðstoð sérfræðinga. Niðurstöður voru síðan kynntar dómnefnd sem valdi besta verkefnið. Matís hélt  svokölluð MAKEathon á fjórum stöðum á Íslandi, frá 10. til 18. september þar sem áhersla var lögð á nýtingu hliðarafurða úr sjávarútvegi. Viðburðurinn er hluti af verkefninu MAKE-it! sem er fjármagnað af Evrópusambandinu (EIT Food).

Gaman er að segja frá því að verkefnið sem vann MakeAthon-ið í Bolungarvík fékk aðstoð frá Vestfjarðastofu til að sækja um inn í Matvælasjóð og fékk þar styrk auk þess að fá stuðning úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Matvælaframleiðsla  á Vestfjörðum

Matvælaframleiðsla er ein meginstoð hins vestfirska hagkerfis ef horft er til stóru útflutningsgreinanna sjávarútvegs og laxeldis. Fjölmarga minni sprota matvælaframleiðenda má finna á Vestfjörðum og þar er einnig að finna fjölmörg tækifæri til enn meiri framleiðslu.

Á árinu 2020 hefur framleiðsla úr laxaafurðum stóraukist á svæðinu og hafa framleiðendur eins og Fisherman á Suðureyri, Tungusilungur á Tálknafirði, Fiskverkun Hrefnu á Flateyri svo nokkrir séu nefndir verið í mikilli vöruþróun með afurðir sínar.

Oddi á Patreksfirði í samstarfi við laxeldisfyrirtækin hefur síðan hafið fullvinnslu til útflutnings og hlaut verkefnið stuðning úr sérstöku Covid-19 framlagi til Sóknaráætlunar Vestfjarða síðasta vor. Það verkefni er farið af stað og hefur þegar skapað nokkurn fjölda starfa á svæðinu.

Matur og matarupplifun verður sífellt mikilvægari þáttur í upplifun ferðamanna á Íslandi. Byggir verkefnið Westfjords Food m.a. á þessum vaxandi áhuga fólks á því að vita um uppruna matvæla og að kynnast staðbundnum mat og matarvenjum.

Markmiðið er að nýta matarauð Vestfjarða sem sóknarfæri, draga fram sérkenni og sérstöðu vestfirskra matvæla og hefðum í matargerð og byggja upp sterka gæðaímynd um mat á Vestfjörðum.

Vestfjarðastofa er nú að vinna að verkefni sem hefur að markmiði að bæta markaðsstöðu og auka sýnileika vestfirskra matvæla og hefur boðið níu smáframleiðendum að taka þátt í því verkefni. Í verkefninu felst þátttaka í vinnustofu um vestfirska matarmenningu, ljósmyndari kemur til hvers framleiðenda og tekur myndir af afurðum, aðstoð við að „segja söguna“ um framleiðsluna og hver og einn framleiðandi fær handleiðslu í stafrænni markaðssetningu með áherslu á samfélagsmiðla.

Ein afurða þessa verkefnis var samstarfsverkefni framleiðenda sem tóku þátt í sýnileikaverkefninu þar sem þeir tóku sig saman um að bjóða „Jólapoka“ sem innihélt afurðir þeirra. Í þessu tilraunaverkefni sem Sýslið á Hólmavík og Húsavíkurbúið héldu utan um voru ríflega 200 jólapokar seldir á nokkrum klukkustundum þannig að ljóst er að eftirspurn er eftir slíkum afurðum.

Vestfjarðaleiðin – nýr valkostur fyrir ferðamenn til Íslands

Ekki er hægt að fjalla um nýsköpun á Vestfjörðum án þess að minnast á Vestfjarðaleiðina. Ferðaþjónustan á Vestfjörðum hefur talað fyrir því að Vestfjarðahringurinn, sem verður til við gerð Dýrafjarðarganga og endurbyggingu vegar yfir Dynjandisheiði og Bíldudalsafleggara  verði skilgreindur sem ferðamannaleið.

Ferðamannaleiðin hefur fengið nafnið Vestfjarðaleiðin og er með henni verið að skapa nýtt aðdráttarafl fyrir Vestfirði og Ísland sem byggir á upplifun og afþreyingu. Með Vestfjarðaleiðinni er ekki eingöngu skapaður vettvangur fyrir hefðbundin ferðaþjónustufyrirtæki að koma sinni afurð á framfæri, heldur tengist Vestfjarðaleiðin hvers konar upplifun á mat, menningu, náttúru og mannlífi svæðisins.

Vestfjarðaleiðin opnaði samhliða Dýrafjarðargöngum í október. Þróun og uppbygging leiðarinnar heldur áfram þrátt fyrir mikla óvissu í íslenskri ferðaþjónustu sem að sjálfsögðu á ekki síður við vestfirska ferðaþjónustu.

Árið hefur verið erfitt í ferðaþjónustunni, en á Vestfjarðastofu var mikið að gera við undirbúning verkefna, fundi og ráðgjafasamtöl. Rík ástæða er til að hafa áhyggjur af því að afleiðingar Covid verði þær að margra ára uppbygging, þekking og reynsla tapist úr ferðaþjónustunni hér rétt eins og um allan heim.  Uppbyggingarstarf og viðspyrna er framundan og teljum við á Vestfjarðastofu Vestfjarðaleiðina vera afar mikilvægt verkfæri í viðspyrnu ferðaþjónustu á svæðinu.

Á Vestfjarðastofu hefur árið verið nýtt til að sinna fjölmörgum verkefnum sem ætlað var að styðja ferðaþjónustu á árinu. Meðal þeirra verkefna var auglýsingaherferðin „Keyrðu kjálkann“ og undirbúin var vetrarherferð sem enn hefur ekki verið hægt að nýta vegna samkomutakmarkana.

Unnið hefur verið í gerð vefsíðu fyrir Vestfjarðaleiðina og Vestfjarðastofa tók þátt ásamt öðrum markaðsstofum landshlutanna og Íslandsstofu í gerð vefjarins www.upplifdu.is sem er gagnvirkur ferðavefur.

Sú breyting verður á næsta ári að heiti Markaðsstofu Vestfjarða verður, með fyrirvara um samþykki sveitarfélaga á Vestfjörðum, breytt í Áfangastaðastofu Vestfjarða. Er þetta gert vegna nýrra samninga um rekstur og fjármögnun ferðaþjónustuverkefna sem gerðir eru við Atvinnuvegaráðuneytið og Ferðamálastofu.

Blámi
Í lok ársins 2020 var skrifað undir samning um samstarfsverkefnið Bláma sem er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu, Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjunar. Verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vestfjarða til næstu þriggja ára. Blámi er nýtt samstarfsverkefni á Vestfjörðum sem snýr að nýsköpun og þróun tækifæra í vetni, orkuskiptum og grænni verðmætasköpun tengdri starfsemi á svæðinu.

Vestfjarðastofa hlakkar til samstarfssins við Bláma og væntir mikils af verkefninu.

https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/blama-ytt-ur-vor

2021 – Ár viðspyrnu

Vestfjarðastofa mun á árinu 2021 leggja ríka áherslu á að styðja frumkvöðla og fyrirtæki til öflugrar viðspyrnu eftir Covid. Framundan eru miklar fjárfestingar hins opinbera í langþráða uppbyggingu samgönguinnviða á svæðinu sem barist hefur verið fyrir svo áratugum skiptir. Á síðustu árum hafa verið gríðarlegar fjárfestingar á svæðinu í uppbyggingu hinnar nýju atvinnugreinar, fiskeldis. Fyrirsjáanlegt er að svo verður áfram.

Meðal verkefna sem fara af stað í upphafi ársins og telja má til aðgerða í viðspyrnu er Ratsjáin sem fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdum greinum úr öllum landshlutum taka þátt í. Ratsjáin er verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Vestfjarðastofa býður Vestfirskum fyrirtækjum þátttöku í verkefninu og eru 9 vestfirsk fyrirtæki þátttakendur í verefninu sem stendur 16 vikur.

Annað verkefni sem fer af stað í upphafi árs er hraðallinn„Hugsum hærra“ sem ráðgjafafyrirtækið Senza, SSNV og Vestfjarðastofa standa að fyrir fyrirtæki á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Í hraðlinum fá starfandi fyrirtæki sem vilja hugsa hærra aðstoð við að vinna fjárfestakynningar, móta stefnu og ramma inn viðskiptaáætlun. Sérstök áhersla er að styrkja fyrirtæki í gerð umsókna í nýsköpunarsjóði (Samkeppnissjóðir Rannís, Tækniþróunarsjóður með áherslu á Sprota og Vöxt, Matvælasjóður og Evrópustyrkir). Vonast er til þess að þau fyrirtæki sem standa að verkefnum sem sótt geta stærri styrki nýti sér þetta tækifæri til að vinna betri umsóknir sem vonandi fá brautargengi.

Þegar erum við að sjá ný fyrirtæki sem hyggjast fullvinna eldisfisk og vinna úr hliðarafurðum hans. Við erum einnig að sjá þjónustufyrirtæki við þessa atvinnugrein byggjast upp.

Miklu máli skiptir því að hægt verði að styðja við þá sprota sem eru að verða til, að hægt verði að byggja á þeirri fjárfestingu í innviðum og byggja ný fyrirtæki ofan á frumframleiðsluna. Fyrirtæki sem byggja á þekkingu, sköpun og tækni. Til þess þarf öflugan stuðning og markvisst starf.

Jákvæðar fréttir voru að berast undir lok ársins með úrskurðum Skipulagsstofnunar tengt leyfismálum Háafells og í tengslum við Kalkþörungavinnslu í Ísafjarðardjúpi. Áfram þarf að berjast fyrir því að ferlar leyfisveitinga séu skýrir og tímafrestir virtir af ríkisstofnunum til að hægt sé að tryggja uppbyggingu atvinnulífs.

Stærstu áskoranir Vestfjarða á næstu árum snúa að því að tryggja að hægt verði að grípa tækifæri til framtíðar á sviði tæknibreytinga fjórðu iðnbyltingarinnar, umhverfis- og loftslagsmála og tryggja að lýðfræðilegar breytingar verði hagfelldari til framtíðar en síðustu áratugi.

Hugarfar nýsköpunar skiptir öllu máli í starfsemi Vestfjarðastofu rétt eins og annarra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga á svæðinu. Miklu máli skiptir að skapa umgjörð til að nýsköpun geti blómstrað, tryggja markaðsaðgengi fyrir afurðir frá svæðinu og að gætt sé að menntun til að mannauður sé á svæðinu til að sinna þeim störfum sem hér skapast.

Sigríður Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA