Ekki er allt sem sýnist

Sumar myndir skapa slík hughrif að þær greipast í minnið. Þessi mynd er ein þeirra og hefur fylgt mér lengi.

Fyrsta sem kom upp í hugann við að sjá hana voru frásagnir af afa mínum, Halldóri Jónssyni bónda, og flutningi hans á bátum yfir heiðar.
Á búskaparárum hans á Skálmarnesmúla í Barðastrandarsýslu keypti hann sexæringinn Breið vestur í Bolungarvík, reri honum inn Djúpið og kom honum fyrir þar til vetraði og hjarn lagðist yfir. „Setti Halldór Breið yfir Kollafjarðarheiði við sjötta mann.

Á heiðinni gerði óveður að þeim félögum, og urðu þeir að skilja þar við Breið. Eftir nokkurn tíma gerði blota. Gekk Halldór þá til heiðar við annan mann. Fundu þeir Breið og hvolfdu honum með þeim hætti, að moka undan annar (svo) i síðunni, þangað til þeir gátu velt honum yfir. Síðar gerði hjarn og fór Halldór þá enn til heiðar og flutti Breið til bæjar. Gekk sú ferð ágætlega.“

Þegar afi minn fluttist síðar búferlum veturinn 1919-20 frá Skálmarnesmúla að Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp „setti hann bátinn sinn fram allan Skálmardal, yfir Skálmardalsheiði og niður í Ísafjarðarbotn.
Þar geymdi hann bátinn uns ísa leysti af firðinum og hægt var að komast á honum á sjó allt að Arngerðareyri.“ Það vann með honum í þessum flutningum að þetta var með allra mestu snjóavetrum.

Flutningar báta á hjarni yfir vetur hafa líklega verið fátíðir. Samt hafa þeir skilið eftir örnefni á heiðum uppi. Á Fossheiði gamalli þjóðleið, sem er á milli Arnarfjarðar og Barðastrandar eru tvö örnefni sem vísa til skipaflutninga.
Sjömannabani er klettahjalli á suðurbrún heiðarinnar og er sagt að þar hafi sjö menn farist við flutning á bát í hríðarbyl.Skipahvammur er annað örnefni á sömu leið, en það er lágur aflíðandi hvammur niður í Arnarbýlisdal.

Lestur mynda getur blekkt og skapað hughrif sem eiga sér ekki stoð í sjálfu myndefninu. Hugrenningar mínar út frá myndinni reyndust vera mislestur. Það er ekki verið að flytja bát yfir heiði og há fjöllin eru ekki á Vestfjörðum. Birgir Þórisson skipasérfræðingur sem var beðinn um að skoða myndina rak augun í að spjald sem fest er framan á bátinn hefði átt að vera við afturstafn. Það hvarflaði að honum að báturinn væri ætlaður til rannsókna á hálendisvötnum og verið væri að flytja hann á staðinn að vetrarlagi.

Þegar myndin barst á Þjóðminjasafnið með safni pappírsmynda frá Morgunblaðinu var hún í möppu með tímasetningunni maí 1965. Birgir fann myndina auðveldlega við leit á tímarit.is með leitarorðinu vatnamælinga.
Myndin birtist í Morgunblaðinu 27. júlí 1963. Þetta er því sumarmynd en ekki vetrar.
Hún er tekin í rannsóknarleiðangri Sigurjóns Rist vatnamælingamanns á Öskjuvatni. Vatnamælingabáturinn er hér á barmi Vítis, sem sést í bakgrunninum. Ferðin með bátinn að Öskjuvatni tók fleiri daga og meðan á ferðinni og dvölinni stóð hrepptu leiðangursmenn hríðarveður og stundum var stórhríð. Sumar sumarnæturnar fór frostið niður í 6 gráður.

Tapar myndin stöðu sinni sem táknmynd um baráttu mannsins við náttúruöflin þegar þessi vitneskja liggur fyrir?

Inga Lára Baldvinsdóttir

Af vefsíðu Þjóðminjasafns Íslands

DEILA