Bolungavík: áforma 12 nýjar íbúðir á árinu

Fasteignafélagið Skýlir ehf hyggst gera 12 íbúðir í húsnæði Bolungavíkurkaupstaðar að Vitastíg 1 – 3 , þar sem verið hefur húsnæði Náttúrugripasafnsins og gistiþjónusta. Hefur G. Hans Þórðarson forsvarsmaður félagsins farið þess á leit við bæjarfélagið að það taki þátt í fasteignafélagi um verkefnið.

Hugmyndin er að stofnað yrði óhagnaðardrifið leigufélag sem mundi eiga eignirnar og leita eftir langtímafjármögnun í gegnum leiguíbúðakerfi HMS. Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 1 apríl og þeim muni ljúka 1. október.

Bæjarráð tók  jákvætt í erindið og skoðar með opnum hug að leggja slíku fasteignafélagi til
fasteignir í eigu sveitarfélagsins við Vitastíg.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að gert væri ráð fyrir að  bæjarfélagið myndi eiga minni hluta hlutafjár í félaginu og kæmi ekki að framkvæmdum eða ráðstöfnun íbúðanna. Skýlir ehf myndi afla fjár til framkvæmdanna og annast framkvæmdir. Hann vakti athygli á því að með þessu verkefni, ef af yrði, myndu verða byggðar 22 íbúðar á næstunni i bænum þegar með eru taldar 10 íbúðir sem Hrafnshóll ehf hyggst reisa á Þjóðólfsvegi.  Það væri mikil þörf fyrir fleiri íbúðir í bænum og þessi viðbót kæmi sé vel.

DEILA