Bannað að afhenda plastburðarpoka í verslunum

Um áramótin tóku þær reglur gildi sem banna afhendingu plastburðarpoka í verslunum.

Bannið tekur jafnt til þunnu, glæru grænmetispokanna og innkaupaburðarpokanna, en nær ekki yfir plastpoka sem eru seldir í rúllum í hillum verslana.

Til þess að koma í veg fyrir að einnota neysla færist yfir á aðra eru einnota burðarpokar úr öðrum efniviði en plasti gjaldskyldir.

Plastpokabannið er í samræmi við Evróputilskipun sem lýtur að því að draga úr notkun á plastpokum.

Bannið var einnig meðal þeirra tillagna sem samráðsvettvangur um aðgerðir í plastmálefnum afhenti Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í loks árs 2018. Í samráðsvettvangnum áttu sæti m.a. fulltrúar atvinnulífsins, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis og ráðuneyta.

Plastpokabannið er ein af fjölmörgum aðgerðum sem stjórnvöld ráðast í til þess að draga úr notkun á plasti, auka endurvinnslu á því og koma í veg fyrir plastmengun sjávar. Nánar má lesa um aðgerðirnar í aðgerðaáætlun í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins, sem kom út síðastliðið haust.

DEILA