Vista setur upp veðurstöð í Aðalvík

Fyrirtækið Vista sérhæfir sig í því að setja upp mælibúnða fyrir íslensk fyrirtæki þar sem þarf að fá nákvæmar mælingar við erfiðustu aðstæður svo eitthvað sé nefnt. meðal annars er fyrirtækið að vinna fyrir Ísafjarðarhöfn og hefur sett upp veðurstöð fyrir höfnina.

Í haust réðst Vista, ásamt nokkrum landeigendum á Sæbóli í Aðalvík  í það að  setja upp veðurstöð. Eins og kunnugt er eru engir vegir að svæðinu og þarf að ferðast þangað með bát. Ekki er rafmagn og símasamband er mjög stopult, helst að hægt sé að ná gsm sambandi uppi á fjöllum og einstaka hæðum.

Veðurstöð krefst straums, stöðugs símasambands og tengingar við internet  svo það er nokkurt verkefni að láta hana virka yfir vetrartímann þegar víkin er með öllu mannlaus.

Feðgarnir Andrés Þórarinsson, stofnandi VISTA og sonur hans Þórarinn Örn, framkvæmdastjóri , fóru í lok ágúst og settu upp veðurstöð, myndavél og 4G búnað. Ákveðið var að mæla að auki hitastig innandyra í bústaðnum og í jörðu við veðurstöðina. Þeir birtu greinargóða lýsingu á  framkvæmdunum á vefsíðunni vista.is:

Notast var við rafhlöðu og sólarsellu sem voru til staðar í bústaðnum og mæliskápur tengdur við rafgeyminn. Lagður var kapall frá húsi og að mastri sem sett var upp skammt frá húsinu. Á mastrinu var komið fyrir vindnema, hitanema og myndavél ásamt hitanema sem var settur 5 cm í jörðu við mastrið til að geta fylgst með frosti í jörðu yfir vetrartímann.

Til þess að ná símasambandi var sett upp stefnuvirkt loftnet og það tengt við 4G beini. Samband náðist tiltölulega fljótt en töluverður tími fór svo í að finna í hvaða átt fengist mestur sambandsstyrkur. Notast var við farsímakort frá Vodafone.

Þar sem nær engin hleðsla er frá sólarsellum á tímabilinu frá nóvember til mars var mikilvægt að búnaðurinn notaði eins litla orku og mögulegt væri. Grunnnotkun búnaðar sem valinn var er mjög lítil  og lausnin var sú að slökkva á öllum búnaði þegar hann þarf ekki að vera í notkun. Síminn og myndavélin eru því bara ræst rétt á meðan verið er að senda gögn.

Stöðin var sett upp í haust og gekk það vel. Myndavélinni er beint að húsinu. Næsta sumar er svo stefnt að því að setja upp aðra myndvél sem tekur mynd út yfir víkina og því ætti að vera auðvelt um vik fyrir ferðafólk og sjófarendur að geta athugað með veður og sjólag áður en lagt er í hann.

Þegar átti að uppfæra forritið með breytingum fyrir vetrartímann þá misfórst eitthvað í gagnasendingunni í stöðina og eftir uppfærslu þá náðist ekki lengur samband við stöðina. Í byrjun nóvember var farin önnur ferð og búnaðurinn skoðaður og endurræstur. Við endurræsingu fóru gögn að berast aftur.

Síðan þá hefur stöðin verið uppfærð með nýju forriti án vandræða.

DEILA