Vesturbyggð styður lögþvingaða sameiningu

Patreksfjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í svari Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra fyrir hönd bæjarstjórnar Vesturbyggðar segir að bæjarstjórnin hafi greitt atkvæði með tillögu um málefni sveitarfélaga á vettvangi sambands íslenskra sveitarfélaga. Lögð er áhersla á í svarinu að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega getu þeirra.

Tillagan var síðan flutt á Alþingi sem lagafrumvarp af Samgönguráðherra og er nú þar til meðferðar. Samkvæmt henni verða sveitafélög fámennari en 250 manns ekki til frá  2022 og engin verða fámennari en 1.000 manns frá 2026.

Svar Vesturbyggðar:

„Bæjarstjórn Vesturbyggðar studdi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaráætlun fyrir árin 2019-2023, sem kosið var um á aukalandsþingi 6. september 2019. Að mati bæjarstjórnar Vesturbyggðar geta legið mörg góð tækifæri í sameiningu sveitarfélaga, enda er það stjórnsýsluumhverfi sem sveitarfélögum er búið í dag, umfangsmeira og þyngra í vöfum en var hér á árum áður. Mikilvægt er að tryggja að sveitarfélög hafi burði til að uppfylla laga- og reglugerðarskyldur sínar og hafi burði til að gæta að jafnræði gagnvart íbúum, óháð búsetu, við veitingu þjónustu á vegum sveitarfélaga.

 

Bæjarstjórn Vesturbyggðar er sammála um mikilvægi þess að unnið verði í þeirri aðgerð þingsályktunarinnar að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega getu þeirra. Kemur það best í ljós nú á tímum heimsfaraldurs, hversu veikir tekjustofnar sveitarfélaga eru og því mikilvægt að endurskoðun tekjustofna og tillögur um aðgerðir liggi fyrir sem allra fyrst.“

 

DEILA