Tvö björg spiluð niður í Bröttubrekku

Starfsmenn Vegagerðarinnar unnu að því fyrir skömmu að ná niður tveimur björgum í bröttum skeringum í Bröttubrekku á Vestfjarðavegi (60). „Þessi björg höfðu valdið okkur nokkru hugarangri en við tókum eftir því að þau voru að mjakast lengra og lengra fram.

Við óttuðumst að þau myndu hrynja og lenda á, eða í veg fyrir ökutæki,“ segir Sæmundur Kristjánsson yfirverkstjóri þjónustustöðvar Vegagerðarinnar í Búðardal.
Vegagerðinni höfðu einnig borist ábendingar frá vegfarendum og því var ákveðið að ráðast í að ná björgunum niður.

Lögreglan aðstoðaði Vegagerðarmenn við aðgerðina og lokaði veginum öðru megin og starfsmenn Vegagerðarinnar hinu megin.

Dráttarbíll frá KM þjónustunni í Búðadal var fenginn á staðinn en hann er bæði með öflugt spil og langan spilvír. Aðstæður voru góðar þar sem dráttarbíllinn gat verið allur utan vegar og var ekki í neinnu hættu. Spilvírinn var svo festur í fyrra bjargið og það spilað niður, og eins farið með seinna bjargið. „Við höfum aldrei gert þetta áður og ekki var ljóst hvort þetta myndi heppnast en þetta tókst svona ljómandi vel,“ segir Sæmundur sem átti hugmyndina að því að nota spil til verksins.

Ekki þurfti að loka veginum nema í klukkutíma og aðgerðin í heild tók fjóra tíma, frá upphafi og þar til búið var að hreinsa
allt grjót af veginum.

Nokkrir starfsmenn þjónustustöðvarinnar í Búðardal tóku myndbönd frá nokkrum ólíkum sjónarhornum af því þegar björgin voru spiluð niður. Ljóst er að töluvert tjón hefði getað orðið af ef björgin hefðu hrunið á vegfarendur. „Við sofum allavega rólegar núna,“ segir Sæmundur.

Myndband af aðgerðinni má sjá hér að neðan.
https://youtu.be/jYWeyn6KehI

DEILA