Súðavík: deiliskipulag við Langeyri staðfest

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafnaði í gær  kröfu Hraðfrystihússins Gunnvör hf sem vildi ógilda ákvörðun Súðavíkurhrepps um deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði. Niðurstaðan er því að ákvörðunin um deiliskipulagið stendur og samkvæmt upplýsingum frá sveitarstjóra Súðavíkurhrepps hefur það þar með fengist staðfest.

Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir landfyllingu og stálþilskanti fyrir kalkþörungaverksmiðju sem Íslenska kalkþörungafélagið hyggst reisa í Súðavík. Í nóvember 2014 var skrifað undir viljayfirlýsingu og vinna að matsáætlun að umhverfisáætlun hófst 2015. Frummatsáætlun er lögð fram í ágúst 2017 og matsáætlun í janúar 2020. Álit Skipulagsstofnunar á þeirri áætlun lá fyrir í apríl. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir einum staðarvalskosti fyrir verksmiðjuna og aðrir kostir útilokaðir. Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hafði á fyrri stigum málsins fjallað um þrjá kosti og valið þann sem síðar fór inn í matsskýrsluna.

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf bendir á að fyrirtækið sé þinglýstur eigandi syðsta hluta Langeyrarinnar og að margs konar starfsemi sé á lóð fyrirtækisins. Vildi það hafa staðsetningu verksmiðjunnar innar í firðinum og gerði ýmsar athugasemdir við valkostagreiningu sem gerð var.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar kemur þó fram að fyrirtækið sé jákvætt fyrir uppbyggingu kalkþörungaverksmiðjunnar í Álftafirði.

Í úrskurðinum segir nefndin að skipulagsvaldið sé hjá sveitarstjórn og deiliskipulagið sé í samræmi við landnotkun sem ákveðin er í aðalskipulagi. Þá sé ferill málsins í samræmi við lög. Því séu hagsmunir kærenda ekki fyrir borð bornir. Bendir nefndin á að geti kærandi síðar sýnt fram á tjón geti hann sótt bætur en það sé dómstóla að ákvarða það. Kærunni var því hafnað.

DEILA