Sóttvarnir: aðgerðastjórn á Vestfjörðum vill sömu reglur um land allt

Aðgerðastjórn Almannavarna á Vestfjörðum, en þar sitja lögreglustjórinn Karl Ingi Vilbergsson, og umdæmissóttvarnalæknarnir Súsanna B. Ástvaldsdóttir og síðan Þórður Ingólfsson, fyrir Strandasyslu og Reykhólahrepp segir í skriflegu svari til Bæjarins besta að það fari best á því að á landinu öllu gildi sömu reglur um samkomutakmarkanir.

Spurt var um afstöðu aðgerðastjórnar  til þess að vægari takmarkanir myndu gilda á Vestfjörðum  en á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þess að mun  meira er um smit á höfuðborgarsvæðinu og hefur svo verið um margra vikna skeið. Nú er ekkert smit á Vestfjörðum og enginn er í sóttkví.

Einnig var spurt  hvers vegna  meiri takmarkanir hafi verið á norðanverðum Vestfjörðum um nokkurra vikna skeið snemma í vor en var annars staðar á landinu.

Ekki hægt að hafa rýmri reglur á Vestfjörðum en hægt að hafa þrengri reglur

í svari lögreglustjórans fyrir hönd aðgerðarstjórnarinnar við síðari spurningunni segir:

„Það er heilbrigðisráðherra, á grundvelli sóttvarnarlaga, sem gefur út reglur um samkomutakmarkanir í landinu.  Aðgerðastjórn getur ekki gefið afslátt af þeim reglum, þ.e. rýmkað þær.  Á hinn bóginn, þegar upp kemur alvarlegt almannavarnarástand eins og var hér á norðanverðum Vestfjörðum í mars og apríl, getur aðgerðastjórn, að höfðu samráði við sóttvarnalækni og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, sett þrengri reglur en almennt gilda og þá á tilteknu svæði.  Slík tilmæli eru sett á grundvelli sóttvarna- og almannavarnarsjónarmiða, s.s. með því að loka skólum o.þ.h.“

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða bendir á að staðfest hópsmit og grunur um hópsmit hafi valdið því „að tilefni var til að fara í harðar takmarkanir. Þá þegar hafði verið farið út í staðbundnar harðar aðgerðir, t.d. í Vestmannaeyjum og Hvammstanga vegna hópsmita þar.“

Samkvæmt þessu gæti aðgerðastjórn á höfuðborgarsvæðinu sett þrengri reglur þar þegar alvarlegt almannaástand skapast eða hópsmit koma upp.

DEILA