Sjónvarpspredikarar

Ég man það þegar sjónvarp kom fyrst inn á mitt heimili.  Ég var þá sex eða sjö ára gamall.  Þetta var stór mumbla, lögð spónviði og myndin, sem birtist í tækinu, var svört og hvít með gráum skuggum.  Og ríkisútvarpið sendi út sjónvarpsdagskrá sex kvöld vikunnar.  Á fimmtudögum var hvíldardagur hjá sjónvarpinu.  Ég horfði bergnuminn á þetta undur; fréttir, fræðsluþætti, Dýrlinginn, umræðuþætti og auglýsingar.  Ég vildi ekki missa af neinu.  Og á hverjum sunnudegi var hugvekja, sem prestur eða guðfræðingur flutti.  Hún var rétt á undan barnaefninu í Stundinni okkar.

Þegar ég var kominn á unglingsár þá var farið að sjónvarpa í lit.  Hvílíkur munur!  Nú sá maður að hann Bjarni Fel, sem lýsti enska fótboltanum, var raunverulega með rautt hár.  Og klettarnir í amerísku kúrekamyndunum voru í sama lit.  En með litnum hurfu sunnudagshugvekjurnar.  Prestur í svartri skyrtu tekur sig kannski ekki vel út í mynd í litasjónvarpi!

Löngu seinna þegar ég var orðinn fullorðinn kom svo þriðja bylgjan í sjónvarpsmálum þegar loks var hægt að kaupa sér aðgang að fjölda sjónvarpsstöðva á Íslandi.  Ég gat horft á nokkrar danskar stöðvar, nokkrar þýskar og nokkrar norskar fyrir utan franska, spænska og ítalska stöð.  Já, og þarna var kristileg sjónvarpsstöð, sem sýndi stundum ágæta íslenska viðtalsþætti en aðallega voru þetta einhverjir útsendingar frá vakningasamkomum í Bandaríkjunum þar sem sjónvarpspredikarar kepptust við að hrópa hellelúja og segja fólkinu að Jesús elskaði það.

Um þetta leyti var ég sjálfur orðinn prestur og ég velti því fyrir mér af hverju íslenska kirkjan væri ekki meira sýnileg í sjónvarpi eða af hverju hún væri ekki með útvarpsþætti.  Hvernig stóð á því að fjöldahreyfing eins og þjóðkirkjan væri ekki þátttakandi í fjölmiðlabyltingu samtímans?  Útvarpsstöðin Lindin og sjónvarpsstöðin Omega voru reknar af áhugasömu fólki, sem kom úr litlum sjálfstæðum kristnum samfélögum.  Af hverju gat litli hópurinn gert þetta en ekki þjóðkirkjan, sem var svo stór?

Á miðöldum voru kirkjan og predikunarstólinn eini fjölmiðillinn á Íslandi.  Fólk fór til kirkju til að heyra guðsorð, hitta aðra og fá fréttir.  Og jú, það fóru reyndar förumenn og förukonur gangandi um sveitirnar og sögðu stundum óspurðar fréttir.  Þau voru internet þess tíma.  En svo kom prentöldin og þá fóru ýmsir að gefa út blöð og tímarit.  Og það gerði kirkjan líka.  Meira að segja Prestafélag Vestfjarða gaf út sérstakt tímarit á fyrri hluta 20. aldar.  En þegar kom að útvarpi og sjónvarpi þá var eins og kirkjan þyrði ekki lengur að kynna sig og sinn boðskap.  Hún var eins og maður, sem þorir ekki að ýta úr vör.  Og slíkur maður dregur ekki fisk úr sjó.  Kirkja, sem áræðir ekki að vera sýnileg, mun ekki laða til sín fólk eða koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

En nú er þetta allt gjörbreytt.  Við íslenskir prestar erum allir orðnir að sjónvarpspredikurum.  Hallelúja!  Fyrir þremur dögum síðan hlutsaði ég á gamlan skólabróður minn, sr. Örnólf Jóhannes Ólafsson, vera með helgistund í Skútustaðakirkju.  Hann spilaði lag á blokkflautu og kveikti síðan á aðventukransinum, söng jólasálm og sagði svo nokkur viðeigandi orð um tímatalið.  Og yfir mig kom sérstök helgi og ég fann andblæ aðventunnar koma til mín við að sjá og hlusta á einn gamlan mann vera í kirkju við Mývatn.

Árið 2020 er árið, sem allir íslenskir prestar urðu sjónvarpspredikarar.  Þessu öllu kom til leiðar ein lítil veira, sem mun upprunnin á matarmarkaði í Kína, þar sem þeir selja froska, skjaldbökur, hákarlaugga, leðurblökur, hunda og fleira góðgæti.  Stundum getur hið mesta böl komið einhverju góðu til leiðar.  Fátt er svo slæmt að ekki boði nokkuð gott.

Enda þótt árið 2020 sé hörmungaár með sjúkdómsplágu, dauða og veikindum, innilokun og sóttkví, atvinnuleysi og tekjufalli þá hafa nokkrir ánægjulegir hlutir gerst.  Íslenska sjónvarpið er farið að sýna messur eins og aðrar sjónvarpsstöðvar á Norðurlöndum gera.  Og mengun í heiminum hefur minnkað eftir að flugferðir lögðust af.  Og síðast en ekki síst, fótboltaliðið sem var aðaliðið í svartahvíta sjónvarpinu, er aftur komið upp í úrvalsdeildina ensku.  Liðið, sem ég og ritstjórinn höldum með, Leeds United er aftur komið upp í efstu deild.  Þannig að árið 2020 er ekki alslæmt.

Kæri lesandi, njóttu aðventunnar með því að hlusta á ljúfa tónlist ellegar lesa góða bók og hugsaðu um hið fallega og góða í veröldinni.  Horfðu á ljósið en ekki myrkrið.

 

Magnús Erlingsson,

prestur á Ísafirði.

DEILA