Sannar gjafir frá Grunnskólanum á Ísafirði

Litlu jólin í Grunnskólanum á Ísafirði voru ekki með hefðbundnu sniði í ár, líkt og svo margt annað í skólastarfinu sem hefur þurft að taka mið af heimsfaraldri Covid-19.

Ein af breytingunum var að ákveðið var að nemendur myndu ekki skiptast á jólapökkum í ár.
Í framhaldi af ákvörðuninni tóku foreldrar og börn í alls fimm árgöngum skólans höndum saman og söfnuðu fyrir „sönnum gjöfum“ Unicef til að gefa í nafni árganganna.

Alls söfnuðust 215.000 krónur sem voru notaðar til að kaupa m.a. námsgögn fyrir börn, bólusetningar, handsápur, leikföng, bolta og bækur.

Í frétt GÍ um gjafirnar segir: „Margt smátt gerir eitt stórt og er gaman að sjá samstöðuna og samhuginn sem ríkir á meðal nemenda og foreldra þegar á reynir. Þessar gjafir geta svo sannarlega bjargað mannslífum en eins og við vitum þá er mikil þörf á aðstoð víða um heim og hvert framlag skiptir máli.“

DEILA