Sameining sveitarfélaga: Hafdís situr hjá

Hafdís Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi  Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga sat hjá við atkvæðagreiðslu á aukalandsþingi Sambands islenskra sveitarfélaga um sameiningu sveitarfélaga þar sem sambandið lýsti yfir stuðningi við þvingaða sameiningu þeirra sem ná ekki 1000 íbúum.

Í næstu viku verður landsþing Sambandsins og þar verða greidd atkvæði um tillögu frá sveitarstjórnarmönnum 20 sveitarfélaga þess efnis að lýsa yfir andstöðu við lögþvingaða sameiningu.

Hafdís skýrir afstöðu sína þannig:

„Þar sem ég gegni formennsku stjórnar FV og Vestfjarðastofu, þar sem fulltrúar sveitarfélaganna hafa mjög misjafnar og sterkar skoðanir á málinu, tel ég það engum gagnast að fara lýsa yfir skoðun minni á þessu máli eða að fara beita mér sérstaklega í því. Þess vegna sat ég hjá þegar greitt var atkvæði um málið á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga haustið 2019.“

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er klofin í afstöðu sinni til málsins. Tveir bæjarfulltrúar styðja stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar. Það eru Daníel Jakobsson og Arna Lára Jónsdóttir. Fjórir bæjarfulltrúar hafa lýst andstöðu sinni og vilja að sameining byggist á samþykki sveitarfélaganna. Það eru Marzellíus Sveinbjörnsson, Þórir Guðmundsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Sigurður Jón Hreinsson. Þá mun Hafdís Gunnarsdóttir sitja hjá í málinu eins og fram kemur í fréttinni.

Sif Huld Albertsdóttir (D) boðar að svör hennar berist fljótlega. Einnig er beðið svara Kristjáns Þórs Kristjánssonar  (B).

DEILA