Ný bók: Friðrik Ólafsson

Friðrik Ólafsson var aðeins barn að aldri þegar hann fór að venja komur sínar á samkomustaði unnenda skáklistarinnar í Reykjavík.

Fáa grunaði að þar færi einn þeirra ungu manna sem ætti eftir að blása hinu nýstofnaða lýðveldi Íslands byr í seglin.

Fimmtán vetra sigldi Friðrik með togaranum Agli Skallagrímssyni á fyrsta skákmót sitt erlendis.

Hann varð Íslandsmeistari 17 ára og Norðurlandameistari ári síðar.

Á þingi FIDE í Dubrovnik í Króatíu árið 1958 var Friðrik sæmdur stórmeistaratitli, fyrstur Íslendinga, og þegar millisvæðamótinu í Portoroz lauk skömmu síðar hafði hann unnið sæti á áskorendamótinu í Júgóslavíu.

Árið 1978 var Friðrik kjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins FIDE. Hann bar hróður lands og þjóðar víða og naut virðingar, ekki einungis í krafti afreka sinna á skákborðinu, heldur einnig vegna fágaðrar og drengilegrar framkomu. Skákunnendur flykktust á mótstaði þegar Friðrik settist að tafli og í afskekktustu sveitum landsins var beðið fregna af viðureignum Friðriks þegar hann atti kappi við sterkustu skákmenn heims.

Í þessari bók rekur Helgi Ólafsson ævintýralegan skákferil Friðriks, bregður upp nærmynd af samferðamönnum og pólitísku andrúmslofti, frásögnum af stórviðburðum og einstæðum menningararfi.

DEILA