Merkir Íslendingar – Jón Sigurðsson

Fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811, dáinn 7. desember 1879.
Foreldrar: Sigurður Jónsson (fæddur 2. janúar 1777, dáinn 31. október 1855) prestur þar og kona hans Þórdís Jónsdóttir (fædd 1772, dáin 28. ágúst 1862) húsmóðir.
Bróðir Jens Sigurðssonar þjóðfundarmanns.
Maki (4. september 1845): Ingibjörg Einarsdóttir (fædd 9. október 1804, dáin 16. desember 1879) húsmóðir.
Foreldrar: Einar Jónsson og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir. Systir Ólafs Johnsens þjóðfundarmanns.
Stúdent 1829 úr heimaskóla hjá séra Gunnlaugi Oddssyni. Lagði stund á málfræði og sögu, síðar stjórnfræði og hagfræði við Hafnarháskóla en lauk ekki prófi. Við verslunarstörf í Reykjavík 1829–1830. Skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi 1830–1833. Varð 1835 styrkþegi Árnasafns, skrifari í stjórnarnefnd þess frá 1848 til æviloka. Vann samtímis hjá Bókmenntafélaginu, Vísindafélagi Dana (Det kgl. danske Videnskabernes Selskab), Fornfræðafélaginu (Det kgl. nordiske Oldskriftselskab), var skjalavörður þess félags 1845–1849, er staðan var lögð niður, naut síðan biðlauna um hríð og styrks úr sjóði J. L. Smidts, uns hann fékk fastan styrk úr ríkissjóði Dana til þess að gefa út fornbréfasafn.
Stofnaði Ný félagsrit og gaf út 1841–1873.
Forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins frá 1851 til æviloka, hlaut af því forsetanafnið. Forseti Þjóðvinafélagsins frá stofnun þess 1871 til æviloka. Átti sæti í fornritanefnd Fornfræðafélagsins frá 1847 til æviloka, skrifari í stjórn þess 1863–1864. Erindreki í fjárkláðamálinu 1859.
Var í fjárhagsnefnd Íslendinga og Dana 1861–1862 og í póstmálanefnd 1871. Hafði laun frá Þjóðvinafélaginu 1873–1874, en síðan heiðurslaun frá Alþingi. Átti heima í Kaupmannahöfn alla tíð frá 1833.
Alþingismaður Ísfirðinga 1845–1879. Þjóðfundarmaður 1851. Sat ekki þing 1855, 1861, 1863 og sagði af sér fyrir þing 1879.
Konungkjörinn fulltrúi Íslands á stjórnlagaþinginu í Danmörku 1848–1849. Forseti Alþingis 1849, 1853, 1857 og 1865–1873, forseti sameinaðs þings 1875–1877, forseti neðri deildar 1875–1877.
Samdi rit og greinar um réttarstöðu Íslands og framfaramál. Gaf út íslensk fornrit og fornbréf. — Stærst margra rita um ævi hans er í fimm bindum: Jón Sigurðsson, eftir Pál Eggert Ólason (1929–1933).
Ritstjóri: Ný félagsrit (1841–1873). Tíðindi frá Alþingi Íslendinga (1845–1847).
DEILA