Merkir Íslendingar – Ingibjörg Einarsdóttir

Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Jóns Sigurðssonar forseta, lést í Kaupmannahöfn, 75 ára gömul þann 16. desember 1879.

Ingibjörg Einarsdóttir var fædd 9. október 1804 og var frumburður foreldra sinna og átti eftir að eignast þrjá bræður. Foreldrar Ingibjargar voru Einar Jónsson, föðurbróðir Jóns Sigurðssonar, og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir.

Þegar Ingibjörg var um ársgömul fluttist fjölskylda hennar að Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi og síðar keypti faðir hennar Þerney þar sem þau bjuggu uns þau fluttu alfarið til Reykjavíkur en þar var faðir hennar verslunarstjóri og síðar kaupmaður. Eftir að móðir hennar lést árið 1837 sá Ingibjörg um heimilið fyrir föður sinn allt þar til hann dó 1839.

Haustið 1845 voru  Ingibjörg  Einarsdóttir og Jón Sigurðsson gefin saman í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík og höfðu þau setið í festum í 12 ár; hún í Reykjavík og Jón í Kaupmannahöfn. Á brúðkaupsárinu var hann 34 ára en hún 41 árs. Sama ár stofnuðu þau heimili í Kaupmannahöfn þar sem Jón hafði búið frá 1833. Hjónin bjuggu á þremur stöðum í Kaupmannahöfn áður en þau fluttu í íbúðina við Øster Voldgade (Jónshús) árið 1852, en þar bjuggu þau til æviloka.

Íslendingar búsettir í Kaupmannahöfn söfnuðust reglulega saman á heimili Ingibjargar og Jóns til að ræða málin og njóta gestrisni þeirra.

Foreldrar Jóns voru Sigurður Jónsson fæddur 2. janúar 1777, látinn 31. október 1855, sóknarprestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð og kona hans Þórdís Jónsdóttir prestdóttir frá Holti í Önundarfirði fædd 1772, látin 28. ágúst 1862, húsmóðir.

Ingibjörg Einarsdóttir var jarðsett í Reykjavík þann 4. maí 1880 ásamt Jóni Sigurðssyni forseta, manni sinum, sem lést 7. desember 1879 í Kaupmannahöfn.

Jón og Ingibjörg voru hin lukkulegustu hjón og jafnræði með þeim í flestu eða þau bættu hvort annað upp. Ingibjörg hefur verið ákveðin og skapheit kona, bóngóð og gestrisin, með  hlýtt hjarta sem sló fyrir Jón og föðurlandið alla tíð. Eftir að Jón dó þann 7. desember 1869 reis Ingibjörg ekki úr rekkju og lést 9 dögum síðar. Hennar síðasta verk var að gera erfðaskrá þar sem hún gaf íslensku þjóðinni muni og eignir þeirra hjóna og óskaði jafnframt eftir því að hvíla við hlið Jóns í íslenskri mold, dygg og trú allt til dauðans.

Í bók Vestfirska forlagsins Frá Bjargtöngum að Djúpi 5. hefti, sem kom út árið 2012, er ítarleg frásögn eftir Einar Sigurbjörnsson af útför Jóns Sigurðsson og Ingibjargar Einarsdóttir frá Dómkirkjunni í Reykjavík þann 4. maí 1880.

Menningar Bakki skráði.

DEILA