Laxeldi í Djúpinu: beðið eftir Skipulagsstofun

Kort sem sýnir fyrirhuguð kvíastæði Arnalax í Ísafjarðardjúpi.

Skipulagsstofnun hefur til athugunar þrjár skýrslur um mat á umhverfisáhrifum af laxeldi í Ísafjarðardjúpi frá þremur fyrirtækjum Arnarlaxi, Arctic Sea Farm og Háafelli. Egill Þórarinsson deildarstjóri hjá Skipulagsstofnun segir unnið að áliti stofnunarinnar um hverja þeirra  og segir Egill að vonast sé til að þau álit liggi fyrir innan nokkurra vikna.

Aðspurður hvort álitið geti legið fyrir fyrir áramót segir Egill:  „Okkar áætlanir hafa gert ráð fyrir því en það er samt erfitt að segja til um hvort þær áætlanir standist. Það er mikill fjöldi mála til meðferðar hjá stofnuninni og útgáfa umræddra álita veltur á framgangi annarra mála.“

Skýrslurnar bárust Skipulagsstofnun í sumarbyrjun. Álit stofnunarinnar á lögum samkvæmt að liggja fyrir innan fjögurra vikna frá því að að tekið er á móti matsskýrslunni.

Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir geta Umhverfisstofnun og Matvælastofnun farið að vinna að því að gefa út starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir starfsemina.

Í áliti Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins og fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu skal stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.

 

DEILA