Hveitikökur komnar í úrslit

Jólalagakeppni Rásar 2 er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi RÚV en hún er nú haldin í átjánda sinn.

Sérstök dómnefnd fór í gegnum öll innsend lög í keppninni í ár og valdi tíu þeirra til úrslita. Það er síðan í höndum hlustenda að kjósa úr þeim sitt uppáhalds jólalag og atkvæði þeirra gilda jafnt á móti dómnefnd.

Eitt af þessum lögum sem heitir því frumlega nafni Hveitikökur er eftir Flateyringinn og fyrrum nemanda Tónlistarskóla Ísafjarðar Lindu Björg Guðmundsdóttur og er hægt að hlusta á það hér

Góður texti og flutningur ætti að verða til þess að sem flestir Vestfirðingar kjósi þetta lag.

Kosningu lýkur á miðnætti föstudagskvöldið 11. desember og úrslitin verða tilkynnt í Morgunkaffinu á laugardagsmorgun. Lagið sem verður fyrir valinu fær útnefninguna jólalag Rásar 2 árið 2020 og sigurvegarinn vegleg verðlaun auk þess sem sigurlagið verður flutt á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar.

DEILA