Flateyri: Veðurstofan birtir drög að endurskoðuðu hættumati

Rýmingarkort fyrir Flateyri.

Veðurstofan segir á vefsíðu sinni að nú liggi fyrir drög að endurskoðuðu hættumati fyrir Flateyri og að það hafi verið kynnt á íbúafundi með Flateyringum og fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í nóvember 2020. Eftir á að rita skýrslu um hættumatið og öðlast það ekki formlegt gildi fyrr en það hefur verið kynnt aftur og staðfest af ráðherra.

Eftir snjóflóðin á Flateyri í janúar var ljóst að endurskoða þyrfti hættumat fyrir Flateyri og að ofanflóðahætta þar væri vanmetin. Bæði snjóflóðin fóru að hluta fyrir varnargarðana ofan þorpsins. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll á hús við Ólafstún þar sem stúlka grófst í flóðinu en var bjargað. Flóðið úr Skollahvilft rann langt út í höfnina og olli þar mjög miklu tjóni. Talið er að sá hluti flóðanna sem rann yfir varnargarðana hafi verið svokallaður flóðfaldur, sem rennur ofan á fremsta hluta flóðsins með iðuköstum þar sem hraðinn getur verið mun meiri en hraði sjálfs þétta kjarna flóðsins.

DEILA