Fiskeldi í Jökulfjörðum: ráðherra vill bíða

Jökulfirðir. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í síðustu viku  var haldinn fundur Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra með fulltrúum sveitarfélaga við Djúp og stofnana um laxeldi í Jökulfjörðum. Ráðherra tilkynnti í sumar að hann tæki til skoðunar að banna laxeldið og óskaði þá eftir umsögnum frá sveitarfélögunum og Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofu og Matvælastofnun. Þær umsagnir voru kynntar bæjarráði Ísafjarðarbæjar fyrr í desember og í framhaldinu boðað til framangreinds fundar.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík sagðist hafa kynnt umsögn bæjarráðs Bolungavíkur sem er á þann veg að styðja afdráttarlaust laxeldi í Jökulfjörðum og að ekkert væri því til fyrirstöðu að hefja undirbúning.  Jón Páll sagði að skiptar skoðanir hefðu komið fram á fundinum um það. Fundurinn hefði verið þarfur og ágætt hefði verið að fá að heyra sjónarmið annarra til málsins. Hann sagðist hafa væntingar til þess að áfram verði unnið að málinu.

Sveitarfélögin við Djúp óskuðu  eftir því í sumar að ráðherra léti framkvæmda burðarþolsmat á svæðinu og áhættumat þar sem slíkt sé nauðsynleg forsenda samkvæmt lögum um fiskeldi.  Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta telur ráðherrann að ef hann óski eftir burðarþolsmatinu og áhættumatinu sé hafið ferli sem ekki yrði stoppað og að honum hugnist frekar að bíða eftir því að lokið verði við haf- og strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði sem unnið hefur verið að undanfarin 2 ár undir forystu Skipulagsstofnunar. Gert er  ráð fyrir að því ljúki næsta haust.

Hvaða þýðingu það skipulag hefur varðandi ákvörðun um laxeldi í Jökulfjörðum er hins vegar óljóst.

Teitur Björn Einarsson, lögfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsti þeirri skoðun sinni í grein á Bæjarins besta í síðasta mánuði að ráðherra hefði  ekki heimild samkvæmt fiskeldislögum til að loka hafsvæðum ef ekki liggja fyrir lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir, þ.e. burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar. Þær rannsóknir væru nauðsynlegar til þess að  ákvarða hvort fiskeldi hafi neikvæð áhrif á umhverfið.

 

DEILA