Alþingi: Halla Signý gefur kost á sér áfram

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér í prófkjör Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Halla Signý skipaði 2. sæti á listanum síðast og náði kjöri. Gefur hún kost á sér áfram í það sæti. Í tilkynningu segir hún: „Ég hef fengið tækifæri að vinna með samheldnum hópi þingflokks Framsóknarmanna sem leggur sig allan fram að leiða verkefnin áfram með samvinnu og festu. Mörg þeirra verkefna sem við löguðum upp með í upphafi kjörtímabils höfum við náð fram þrátt fyrir frá COVID 19.“

Í Norðvesturkjördæmi fer fram póstkosning og munu valdagar standa frá 1. febrúar til og með 26. febrúar 2021. Þeir sem vilja taka þátt í því vali verða að vera skráðir í Framsóknarflokkinn fyrir 2. janúar nk.

Þá hefur Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna gefið kost á sér í 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 2021.

Lilja Rannveig er fædd 1996, stundar námi við Háskóla Íslands og er búsett í Bakkakoti í Borgarbyggð ásamt fjölskyldu sinni. Unnusti hennar er Ólafur Daði Birgisson og saman eiga þau tvö börn. Lilja hefur verið formaður Sambands ungra Framsóknarmanna síðan 2018 og er varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

DEILA