Að syngja inn jólin

Fimm frægustu sönglagakonur Íslendinga um 1960 syngja hér saman í útvarpssal Ríkisútvarpsins. Á myndinni má sjá frá vinstri söngkonurnar Berthu Biering, Sigrúnu Jónsdóttur, Ellý Vilhjálmsdóttur, Helenu Eyjólfsdóttur og Önnu Vilhjálmsdóttur1.
Þær eru þarna að syngja bakraddir fyrir plötu Hljómsveitar Svavars Gests sem hlaut heitið Fjögur jólalög. Á plötunni var söngvurunum Ellý Vilhjálms og Ragnari Bjarnasyni telft fram sem stjörnunum. Meðal annars með því að láta mynd af þeim tveimur sitjandi á gólfi við jólatré prýða plötuumslagið.

Jólalögin hafa löngum verið samofin jólahaldi þjóðarinnar. Íslenskar jólaplötur eru samt ekki gamalt fyrirbæri. Sú fyrsta var gefin út árið 1954 með tveimur lögum í flutningi Ingibjargar Þorbergs. Þá komu tvær plötur út árið 1964. Það voru jólaplata Hauks Morthens Hátíð í Bæ og jólaplata Hljómsveitar Svavars Gests með fjórum lögum.2

Hljómplatan var tekin upp í útvarpssal Ríkisútvarpsins. Hún þótti tíðindum sæta og í umfjöllun í tímaritinu Fálkanum í nóvember 1964 er ferlinu við upptökurnar og framleiðslu plötunnar lýst. Þar er sagt hversu langur tími fór í upptöku plötunnar, fjórir og hálfur klukkutími af upptöku, sem síðan varð að 12 mínútna spilun á plötu. Þá eru nefndir þeir hljóðfæraleikarar og söngvarar sem komu að gerð plötunnar. Eins og heiti plötunnar gefur til kynna voru á henni fjögur jólalög. Segja má að þau hafi öll lifað áfram með þjóðinni og seinna meir verið gerð í ólíkum útgáfum með öðrum flytjendum. Lögin voru Hvít jól, Jólasveinninn minn, Jólin allsstaðar og Litli trommuleikarinn.

Útvarpið og seinna sjónvarpið hafa átt sinn stóra þátt í að gera þessi jólalög að föstum hluta hátíðarinnar. Lögin í mörgum ólíkum útgáfum hafa þannig orðið einn af samnefnurum okkar allra í jólahaldinu. Raddir söngvaranna Berthu, Sigrúnar, Ellý, Helenu og Önnu áttu sinn þátt í að skapa þann samhljóm þegar þær sungu inn jólin okkar fyrir meira en hálfri öld síðan.

Af vefsíðu Þjóðminjasafnsins

DEILA