Tryggjum velferð hrossa á útigangi

Íslenski hesturinn hefur lifað í íslenskri náttúru um aldir og er sérlega vel í stakk búinn til að ganga úti allan ársins hring.

Hross eru allt sumarið að undirbúa sig fyrir komandi vetur þó haustið sé mikilvægasti tíminn í því tilliti. Að hausti þurfa öll hross, sem ætlað er að ganga úti frameftir vetri eða vetrarlangt, að hafa aðgang að góðri beit og mikilvægt að þau nái að safna nokkrum fituforða. Fitulag undir húð er einangrandi og eins þurfa hross á fitu að halda til brennslu á meðan stórviðri ganga yfir.

Helstu mælikvarðar á velferð hrossa eru holdafar og heilbrigði en auk þess er litið til atferlis og upplits hrossanna. Samræmt mat á holdafari er byggt á holdastigunarkvarða sem þróaður hefur verið fyrir íslenska hestinn og góð reynsla er komin á.

Umráðamenn hrossa þurfa að fylgjast vel með veðurspám og gefa hrossum með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara fyrir óveður, þar sem beit er ekki næg. Hafa þarf í huga að snöggar fóðurbreytingar, sér í lagi úr grófu fóðri í sterkara, auka hættu á meltingartruflunum sem geta endað með hrossasótt. Því getur verið varhugavert að gefa fyrstu heygjöf vetrarins rétt fyrir mikið óveður þar sem ekki er auðvelt að fylgjast með heilbrigði hrossanna eða koma þeim til hjálpar. Þá getur verið tryggara að þau standi af sér veðrið og fái góða gjöf þegar slotar, enda hafi þau verið á beit og ekki svöng þegar veðrið skall á.

Nánar í grein um velferð hrossa á útigangi í Eiðfaxa

DEILA