Þingeyri: sólsetrið verður 12 m að hæð og allt að 600 fermetrar

Pálmar Kristmundsson  hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi fyrir „Sólsetrið“ sem rísa á á þingeyri og skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan og greinargerð fyrir Sólsetrið, Þingeyri  verði auglýst.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa bæjarins kemur fram að einnig þurfi að breyta aðalskipulaginu og hægt sé að auglýsa þá breytingu samhliða auglýsingu á deiliskipulagi.

Í kynningu segir að  ,,Sólsetrið”,  sé listaverk sem verður í eðli sínu sérstakt að því leyti, að vera „manngengur skúlptúr” og „íveru- og upplifunarstaður“.

Verkið, sem verðu að hámarki 600 m2 með 12 m hámarkshæð, verður opið öllum almenningi, í þeim tilgangi að tengja við og njóta náttúru staðarins, landi, fjöru, hafi og sól og samspili þessara þátta. „Sólsetrið” mun jafnframt ramma inn sólarlagið í Dýrafirði auk þess að varpa á skjá, í rauntíma, myndskeiðum frá sólsetri á 24 öðrum stöðum í heiminum. Nýtingarhlutfall lóðarinnar verður 0,2.

Fyrirhugað er að afmarka 3000 fermetra lóð við Vallarstræti á Þingeyri og er lóðin innan þéttbýlis Þingeyrar. Í aðalskipulaginu eru fjaran, tjaldsvæðið, Víkingasvæðið og íþróttasvæði Þingeyrar tilgreind sem hlutar af ,,stærra svæði” með ,,landnotkun m.t.t. ferðaþjónustu í Ísafjarðarbæ”.

Svæði það sem lóðin verður á, er skilgreint sem útivistarsvæði og segir í skipulagstillögunni að svæðið hafi verið í órækt og ekki nýtt til neins. Markmiðið með deiliskipulagstillögunni er sagt vera að að auka aðdráttarafl svæðisins og stuðla að og auka útivistargildi þess, með
gerð ,,áfanga-”, „ferðamanna-“ og „upplifunarstaðar“.

DEILA