Samningur Vegagerðarinnar um áætlunarflug um Bíldudalsflugvöll

Að kvöldi 9. nóvember 2020 var bæjarstjóra Vesturbyggðar og forseta bæjarstjórnar, í gegnum óformleg skilaboð sagt frá því að nýr rekstraraðili væri að taka við áætlunarflugi á Bíldudalsflugvelli eða frá 16. nóvember nk. Vesturbyggð hafði fylgst með útboði áætlunarflugs um Bíldudalsflugvöll síðan í júní, þegar upp komu álitamál er vörðuðu framkvæmd útboðsins af hálfu Ríkiskaupa. Þær upplýsingar sem lágu fyrir hjá sveitarfélaginu voru að málið væri í skoðun, á meðan það færi í gegnum lögbundnar kæruleiðir. Það kom sveitarfélaginu því verulega á óvart að búið væri að ganga frá undrritun samnings um áætlunarflug um Bíldudalsflugvöll.

 

Einnig vakti það furðu að Vegagerðin hafi ekki tilkynnt opinberlega um það að undirritaður hafi verið samningur við nýjan rekstraraðila þann 2. nóvember sl. þar sem gengið var frá samningi við Norlandair. Vesturbyggð hefur komið þeim athugasemdum á framfæri við Vegagerðina, að æskilegt hefði verið að stofnunin hefði tilkynnt opinberlega um undirritun samningsins og að minnsta kosti upplýst sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum um samninginn. Sérstaklega þar sem nýr rekstraraðili mun hefja áætlunarflug þann 16. nóvember nk. Undirbúningstími fyrir núverandi rekstraraðila Flugfélagið Erni og nýjan rekstraraðila Norlandair telur því í örfáum dögum. Vekur það mikla furðu og hefur orðið til þess að mikil óvissa er vegna málsins og óteljandi spurningar hafa vaknað og mörgum þeirra enn ósvarað.

 

Vesturbyggð hefur síðan 9. nóvember verið í miklu og góðu samtali við Vegagerðina, forsvarsmenn flugfélagsins Ernis og Norlandair sem og þingmenn umhverfis- og samgöngunefndar sem hefur haft málið til umfjöllunar.

 

Vesturbyggð tekur undir áhyggjur Samtaka fyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum, ef rétt reynist að þjónusta á Bíldudalsflugvelli verði skert. Vesturbyggð hefur óskað eftir frekari upplýsingum frá Vegagerðinni, hvort þær fullyrðingar um skerta þjónustu eigi við rök að styðjast. Vegagerðin hefur upplýst sveitarfélagið að hluta en enn er spurningum sveitarfélagsins enn ósvarað. Það er skýlaus krafa að hálfu Vesturbyggðar að áætlunarflug um Bíldudalsflugvöll verði ekki með nokkru móti skert frá því sem verið hefur, enda stólar öflugt atvinnulíf og íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum á öruggar og góðar flugsamgöngur í gegnum Bíldudalsflugvöll.

 

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð

 

DEILA