Samgönguráðherra: Óskiljanleg aðför Reykjavíkurborgar

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í gær. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson vék að kröfu Reykjavíkurborgar í ræðu sinni á fundinum. Sagði ráðherrann að það hefði komið honum og fleirum í opna skjöldu að borgin hafi sett fram formlega kröfu upp á 8,7 milljarða króna í fé úr Jöfunarsjóðnum fyrir rétt um ári.

Borgin haldi því fram að ekki hafi verið skýr stoð með vísan til 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar fyrir þeim reiknireglum sem giltu um tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs á árunum 2015 til 2019.

Fráleit krafa

„Þessari kröfu var að sjálfsögðu hafnað af hálfu ríkisins, enda fráleit. Ég hef tekið málið upp við borgarstjóra og átti eiginlega von á því að þetta mál yrði dregið til baka, enda finnst mér að umræða um Jöfnunarsjóð eigi að snúast um það hvernig við viljum hafa hann til framtíðar, ekki hvernig hann var í fortíðinni. Mér varð hins vegar ekki að óski minni því fyrir um tveimur vikum barst ríkislögmanni ítrekunarbréf frá borginni um þessa kröfugerð.

Mikilvægt er að borgarfulltrúar í Reykjavík sem og allt sveitarstjórnarfólk geri sér grein fyrir því að þessari kröfu er ekki beint gegn ríkissjóði – henni er beint gegn sveitarfélögunum í landinu.“

Sigurður Ingi benti á að Ríkissjóður borgar ekki kröfur sem verða dæmdar á ríkissjóð vegna Jöfnunarsjóðs, heldur verður Jöfnunarsjóður sjálfur að gera það.

Ráðherrann kvatti borgina til að draga þessa kröfu til baka – en lýsi sig reiðubúinn til að setjast niður með fulltrúum allra sveitarfélaganna í landinu til að ræða endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og – ekki síst – Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

„En það verður að vera með jöfnuð og þarfir alls landsins að meginmarkmiði“ sagði ráðherrann að lokum.

Samgönguráðherrann sagði um Jöfnunarsjóðinn að hann gegnir mikilvægu hlutverki fyrir sveitarstjórnarstigið. Honum er ætlað að tryggja jafna skiptingu tekjustofna og að hægt er að halda úti góðri grunnþjónustu í byggðum landsins án tillits til fjarlægða eða íbúafjölda. „Hann tryggir lífsgæði óháð búsetu og aðgengi að opinberri þjónustu ríkisins.“

Ráðherrann sagði að galli í lagasetningu hefði leitt til þess að fimm tekjuhæstu sveitarfélög landsins fengu úthlutað framlög sem þau augljóslega höfðu ekki þörf fyrir. Úr þessum ágalla var snarlega bætt af Alþingi og þar með er betur tryggt að tekið er mið af tekjumöguleikum einstakra sveitarfélaga við úthlutun framlaga. Reykjavíkurborg hefði greinilega ekki unað þessu og hefði því sett fram kröfu sína í lok síðasta árs og héldi henni til streitu.

 

 

DEILA