Samgönguráðherra: flutningskostnaður raforku verður jafnaður

Samgönguráðherra við opnun Dýrafjarðarganga.

Fram kom á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í morgun í ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, Samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins að í gær  hafi verið samþykkt frumvarp í ríkisstjórn um fulla jöfnun flutningskostnaður raforku, þannig að allir íbúar landsins munu sitja við sama borð, sama hvar á landinu þeir eru.  Frumvarpið fer nú fyrir þingflokka Alþingis og til afgreiðslu þings ásamt aukinni niðurgreiðslu.

Flutningskostnaður raforku hefur lengi verið hærri fyrir greiðendur í dreifbýli og fámennum þéttbýliskjörnum en í þéttbýli.

Sigurður Ingi Jóhannsson vék að fleiri málum í yfirlitsræðu sinni. Hann sagði að aldrei hafi fjárfesting í samgöngum verið meiri en nú og næstu ár. „Þar vil ég meina að framundan séu einu mestu umbreytingar sem sést hafa og að landsmenn hafi ekki upplifað annað eins framkvæmdatímabil.“

Þá minntist hann á  beina niðurgreiðslu flugferða fyrir íbúa á landsbyggðinni, Loftbrúna og kallaði það stórkostlegt byggðamál sem „jafnar verulega aðstöðu þeirra sem búa fjarri höfuðborginni og þurfa að sækja þangað þjónustu og afþreyingu.“

Um jarðamálin agði formaður Framóknarflokksins:

„Nokkrar lagabreytingar hafa þegar tekið gildi sem fela í sér aukið gagnsæi í eignarhaldi og takmarkanir á stærð og fjölda jarða í eigu sama aðila. Land er auðlind sem landeigandinn varðveitir og eykur verðmæti frá einni kynslóð til annarar – hvort sem land er í einkaeigu bænda eða land í opinberri eign. Við viljum hafa skýran rétt til landnýtingar og atvinnusköpunar – en munum berjast gegn uppkaupum á landi sem ganga gegn skynsamlegri uppbyggingu byggða.“

 

 

DEILA