Reykhólar: fyrrv. sveitarstjóri stefnir hreppnum

Tryggvi Harðarson fyrrverandi sveitarstjóri.

Tryggvi Harðarson fyrrverandi sveitarstjóri hefur birt Reykhólahreppi stefnu vegna uppsagnar hans fyrr á árinu. Tryggva var sagt upp stöfum 14. apríl og var honum gert að hætta strax. Uppgefin ástæða var ólík sýn sveitarstjórnar og Tryggva á  verkefnin.  Ágreiningur var um uppsögnina og voru fjórir sveitarstjórnarmenn sem stóðu að uppsögninni  en einn þeirra, Ingimar Ingimarsson fyrrverandi oddviti, greiddi atkvæði gegn og taldi hana lögleysu.

Í stefnunni kemur fram að krafist er þess að sveitarstjórinn fyrrverandi fái greidd laun út kjörtímabilið til ágústloka 2022. Gerð er að auki krafa um tveggja milljón króna miskabætur. Samtals er krafan um 30 milljónir króna auk vaxta.

Krafan er studd þeim rökum að uppsögnin hafi verið ólögmæt þar sem hún var án undangenginnar áminningar og að ekki hafi verið málefnalegar ástæður fyrir henni.

Stefnan var rædd á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku og samþykkti meirhluti sveitarstjórnarinnar, Árný Huld Haraldsdóttir, Embla Dögg Jóhannsdóttir og  Jóhanna Ösp Einarsdóttir, að  lögfræðingi sveitarfélagsins verði falið að verja hagsmuni sveitarfélagsins í samráði við þá sem stóðu að uppsögninni.

Tveir hreppsnefndarmenn, Ingimar Ingimarsson og Karl Kristjánsson sátu hjá og bókaði Ingimar að hann vildi að samið yrði við Tryggva Harðarson um lyktir málsins.

DEILA