Opinber störf hlutfallslega flest í Strandabyggð

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fram kemur í nýbirtri skýrslu Byggðastofnunar um staðsetningu starfa á vegum ríkisins að á Vestfjörðum eru þau hlutfallslega flest í Strandabyggð. Flest eru störfin hins vegar í Ísafjarðarbæ. Um síðustu áramót voru störf ríkisins á Vestfjörðum 449 og hafði fækkað um fimm frá fyrra ári.

Eins og taflan, sem er úr skýrslunni, sýnir eru langflest störfin í Ísafjarðarbæ eða 317. Ekki kemur fram hvernig störfin dreifast innan Ísafjarðarbæjar, en telja verður næsta víst að þau eru nánast öll á Ísafirði. Þá eru 40 störf í Strandabyggð og 57 störf í Vesturbyggð.

Sé fjöldi starfa  skoðaður  sem hlutfall af íbúum 15-64 ára ,eins og gert er í skýrslu Byggðastofnunar, fæst mælikvarði á þýðingu starfa ríkisins fyrir vinnumarkaðinn í viðkomandi sveitarfélagi.

Á þennan mælikvarða er hlutfallið 13,7% í Strandabyggð sem er það hæsta á Vestfjörðum. Í Ísafjarðarbæ er hlutfallið einnig nokkuð hátt eða 12,7%. Það er 8,2% í Vesturbyggð og 8% í Reykhólahreppi. Í öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum er hlutfallið lágt 3,4% í Bolungavík, 1,5% í Kaldrananeshreppi, 3,3% í Árneshreppi, 0,7% í Súðavík og 0% í Tálknafjarðarhreppi.

Til samanburðar þá er hlutfallið hæst í Reykjavík 17,5%. Á móti því er hlutfallið aðeins 2,2% -3,5% í nágrannabæjum Reykjavíkur. Á Akureyri er hlutfallið 12,7%, tæp 10% í Árborg ,11,7% í Skagafirði og 15,2% í Blönduósbæ.

DEILA