Oddi hf Patreksfirði: sterk eiginfjárstaða

Eiginfjárstaða Odda hf á Patreksfirði er um 40% af eignum. Eignir fyrirtækisins eru bókfærðar á 3,7 milljarða króna og skuldlaus eign er 1,5 milljarður króna í lok árs 2019.

Helstu eignir eru veiðiheimildir. Bókfært verð þeirra er 2,3 milljarðar króna. Í byrjun fiskveiðiársins 1. september 2019 fékk fyrirtækið 2.821 þorskígildi úthlutað þar af langmest í þorski. Markaðsverð heimildanna gæri verið um 8,5 milljarðar króna sé miðað við  verðið 3.000 kr/kg af þorskveiðiheimild. Samkvæmt því er dulið eigið fé í fyrirtækinu upp á um 6 milljarða króna.

Að þessu sinni er uppgjörstímabilið 16 mánuðir í ársreikningi Odda hf , frá 1.sept. 2018 til 31. desember 2019. Rekstrartekjur á þessu tímabili voru 2,7 milljarðar króna og hagnaður af rekstri fyrir fjármagnskostnað varð 330 milljónir króna. Hagnaður fyrir skatta varð 103 milljónir króna.

Laun og tengd gjöld voru rúmur milljarður króna  og 73 stöðugildi að jafnaði hjá fyrirtækinu.

OPO ehf er langstærsti eigandinn og á 99,95% hlutafjár. Sigurður Viggóson og Skjöldur Pálmason eiga 0,03% hlutafjár hvor um sig.

OPO ehf er í eigu þeirra tveggja að jöfnu. Helsta eign þess er hlutafé í Odda hf. Eignir þess eru 1,4 milljarðar króna samkvæmt ársreikning 2019 og eigið fé 1,3 milljarður króna.

DEILA