Norlandair með ófullnægjandi vélakost þegar útboð fór fram

Það sem einna helst er deilt um í ákvörðun Vegagerðarinnar um að semja við Norlandair frekar en Flugfélagið Erni um áætlunarflut til Bíldudals og Gjögurs til næstu þiggja ára er flugvélafloti Norlandair. Talsmenn Flugfélagsins Ernis halda því fram að Norlandair uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar voru í útboðinu um flugvélarnar. Þar var gerð sú krafa að vélarnar væru búnar jafnþrýsibúnaði, tækju að lágmarki 9 farþega á báðum leiðum og a.m.k. 15 farþega að sumarlagi á annarri þeirra og gætu borið a.m.k. 600 kg af farangri eða frakt frá 1. nóvember til maíloka.

Eftir útboð samdi Ríkiskaup 31. ágúst við Norlandair um allar þrjár flugleiðirnar. Þann 17. september yfirtekur Vegagerðin  málið af Ríkiskaupum og afturkallar ákvörðunina um samninga með þeim skýringum að mögulega hafi verið gerð mistök við mat tilboða og því hvort bjóðendur uppfylltu kröfur útboðsgagna. Jafnfram óskar Vegagerðin eftir upplýsingum frá Norlandair hvort félagið hafi tryggt sér flugvél sem uppfyllti kröfur útboðsgagna m.a. um jafnþrýstibúnað.

Í fréttatilkynningu frá Norlandair sem birtist á fimmtudaginn segir að til standi  „að nota nýlega 9 sæta Beechcraft B200 King Air, sem búin er jafnþrýstibúnaði. Jafnframt verður notast við Dash 8-200, sem er 37 sæta, þegar og ef þörf krefur. Að auki býr félagið yfir þremur Twin Otter flugvélum….“

Þá koma fram upplýsingar um þennan þátt málsins í úrskurði kærunefndar útboðsmála frá 30. október. Þar er vísað í upplýsingar frá Norlandair og áform fyrirtækisins um flugvélar á flugleiðunum:

„Í tölvubréfi Norlandair ehf. 21. september 2020 var upplýst að fyrirtækið hefði brugðist við þeirri kröfu að boðnar flugvélar skyldu vera búnar jafnþrýstibúnaði, en krafa þessi hafi komið ný inn í útboðsgögn í svörum við fyrirspurnum sex dögum fyrir lok tilboðsfrests, með því að taka fram í tilboði sínu að til stæði að kaupa eða leigja 19 sæta Beechcraft 1900 C/D flugvél til að sinna því flugi sem krefðist jafnþrýstibúnaðar. Frekari skoðun hafi hins vegar leitt í ljós að umædd vél myndi ekki henta félaginu eins og best væri á kosið vegna lengdar flugbrautar á Bíldudal. Fyrirtækið teldi betri kost að kaupa eða leigja 37 sæta DASH 8 100/200 flugvél sem þyrfti styttri flugbrautir, en fyrirtækið hefði verið með þennan kost í skoðun allt frá því í janúar 2020 og hefði meðal annars verið búið að afla bindandi tilboðs um leigu slíkrar vélar. Tilboðinu hafi þó ekki verið tekið vegna Covid-19.“

Þá voru lögð fram gögn um samstarf milli Norlandair og Air Iceland Connect varðandi DASH 8 flugvélina og í úrskurði kærunefndarinnar segir um það:

„Með bréfinu fylgdi yfirlýsing Air Iceland Connect þar sem kom fram að á meðan Covid-19 faraldurinn vari og takmarkanir séu á þjálfun nýrra flugáhafna vegna hans myndi Air Iceland Connect eiga í samstarfi með Norlandair ehf. um flug milli Reykavíkur og Hornafjarðar [ síðar kom fram að það samstarf mun ná til allra flugleiða] og myndi fyrirtækið nýta 37 sæta DASH 8-200 flugvél fyrir verkefnið, en vél þessi væri útbúin jafnþrýstibúnaði.“

 

Beechcraft King Air vélin sem er í eigu félagsins og er sögð 9 manna

er hins vegar aðeins skráð 7 manna í loftfaraskrá sbr. meðfylgjandi skjáskot. Sé það raunin þá er sú vél ófullnægjandi miðað við útboðsskilmála.

Í gögnum segir að King Air flugvél Norlandair sé útbúin jafnþrýstibúnaði en til þess að tryggja stærri vél sem getur tekið a.m.k 15 manns í sæti í júní, júlí og ágúst ár hvert þá hafi Norlandair í hyggju að annaðhvort leigja eða kaupa vél. Það sem er verið að skoða núna er Beechcraft 1900 c/d. Með öðrum orðum svona vél er ekki tiltæk enn.

Beechcraft 1900 C gerðin

 

Þriðja flugvélagerðin sem Norlandair nefnir er De Havilland DHC6-300 Twin Otter og að félagið eigi þrjár slíkar. Þær geta tekið 19 farþegar hver en eru ekki búnar jafnþrýstibúnaði og eru auk þess mjög hægfara. Flugtíminn til Bíldudals frá Reykjavík verður um 60 mínútur og lengist verulega í mótvindi.

Af þessu er ljóst að Norlandair var með ófullnægjandi flugvélakost þegar útboðsgögnum var skilað inn og ekki er víst að félagið uppfylli skilyrðin enn. Fram kemur í úrskurði kærunefndarinnar að ef bjóðandi gæti ekki sýnt fram á að hann uppfyllti nauðsynlegar kröfur fyrir skilafrest útboðsins skyldi í tilboðum gerð grein fyrir því hvernig áætlað væri að uppfylla þær áður en þjónustan hæfist. Fyrir liggur eftir undirritun samningsins 2. nóvember að Norlandair hefur þjónustuna á mánudaginn þann 16. nóvember.

Málið hefur fleiri hliðar sem þarf að skoða en þessi þáttur málsins, sem er væntanlega ansi veigamikill lítur ekki vel út fyrir Vegagerðina og Norlandair.

-k

 

 

 

 

 

 

 

DEILA