Jöfnunarsjóður greiðir 5 milljarða til höfuðborgarsvæðisins

Reykjavík fékk 1,7 milljarða króna í framlög frá ríkinu í fyrra.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greidd á síðasta ári 5,1 milljarða króna til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar af fékk Reykjavíkurborg þriðjunginn eða 1,7 milljarða króna. Þetta er tvöfalt hærri fjárhæð er Jöfnunarsjóður greiddi til sveitarfélaga á Vestfjörðum.

Alls greiddi Jöfnunarsjóður 29,7 milljarða króna til sveitarfélaga á síðasta ári. Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum. Stærstu útgjaldaliðirnir voru 10,4 milljarðar króna til jöfnunarútgjalda sveitarfélaga og 9,2 milljarðar króna til jöfnunar á rekstri grunnskóla.

Framlög sjóðsins til sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu voru einkum til reksturs grunnskóla 1,9 milljarðar króna, til sérþarfa fatlaðra 1,8 milljarður króna og tæpar 600 milljónir króna til jöfnunar útgjalda milli sveitarfélaga landsins.

Þessar tölur um há framlög frá ríkinu í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eru athyglisverðar í ljósi þess að fjölmennari sveitarfélög eru talin betur í stakk búin til að ráða við verkefnin sem þeim eru að lögum falin.

Vestfirðir 2,4 milljarðar króna

Sveitarfélögin níu á Vestfjörðum fengu á síðasta ári samtals 2,4 milljarða króna greidda úr Jöfnunarsjóðnum. Ísafjarðarbær fékk hæstu greiðslurnar 1005 milljónir króna, Vesturyggð 389 milljónir króna og Bolungavíkurkaupstaður 300 milljónir kr.

Framlögin til Vestfjarða voru mest til jöfnunar útgjalda 1060 milljónir króna, til reksturs grunnskóla 680 milljónir króna og til jöfnunar á tekjum af fasteignaskatti 560 milljónir króna. Framlög til sérþarfa fatlaðra voru aðeins 20 milljónir króna.

DEILA