Ísafjarðarbær: samþykkt að bjóða úr knattspyrnuhús

Deilt var um útboð á knattspyrnuhúsi á fundi bæjarstjórnar fyrir síðustu helgi. Fyrir bæjarstjórninni var lögð tillaga bæjarráðs þess efnis að samþykkja breytingar á útboðsgögnum samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra, og heimila útboð í kjölfarið.

Minnisblaðið hefur ekki verið birt.

Fyrir lágu ný útboðsgögn vegna knattspyrnuhúss, ásamt minnisblaði Axels R.
Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs sem bæjarráð hafði samþykkt.

Í umræðum um málið á fundinum lagði Sigurður J. Hreinsson lagði fram  breytingartillögu  þar sem lagt var til að fresta málinu um óákveðinn tíma.

Breytingartillagan var felld 5-4. og síðan var upphaflega tillagan samþykkt 5:4.

Breytingartillaga Sigurðar:
„Bæjarstjórn samþykkir að fresta ákvörðun um útboð á fótboltahúsi um óákveðinn tíma. Í millitíðinni verði endurskoðunarfyrirtæki falið að meta núverandi getu bæjarfélagsins til að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir.
Greinargerð:
Á vordögum 2019 var endurskoðurnarfyrirtækið Enok fengið til að meta fjárhagslega burði bæjarfélagsins til að takast á við fjárfrekar framkvæmdir eins og byggingu fótboltahúss. Í niðurlagi skýrslunnar stendur m.a.:
„Gangi fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins eftir næstu árin teljum við að sveitarfélagið sé í stöðu til að takast á við þessa framkvæmd. Hins vegar eru blikur á lofti og nokkur óvissa með horfur í efnahagslífinu sem gætu haft töluverð áhrif á fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins. Áætlanir um miklar fjárfestingar og aukna skuldsetningu dregur úr möguleikum sveitarfélagsins til þess að takast á við möguleg áföll og niðursveiflu. Í því ljósi þyrfti sveitarfélagið mögulega að endurskoða fjárfestingaráætlanir sínar og skera niður í framkvæmdum sem gætu talist nauðsynlegar fyrir uppbyggingu í sveitarfélaginu.“

Ljóst er að fjárhagsleg áföll sveitarfélagsins í tengslum við heimsfaraldur Covid eru gríðarleg og falla klárlega undir skilgreiningu Enoks um „blikur á lofti“. Því verður að teljast óráðlegt að taka á þessum tíma bindandi ákvörðun um fjárfrekar framkvæmdir á meðan enginn virðist átta sig á rekstrar- og framkvæmdagetu sveitarfélagasins til næstu ára.“

DEILA