Hraunskirkja í Keldudal orðin eign Þjóðminjasafnsins

Hraun í Keldudal. Mynd: Þjóðminjasafnið.

Þjóðminjasafnið er orðinn þinglýsur eigandi að Hraunskirkju í Keldudal í Dýrafirði samkvæmr yfirlýsingu frá því í maí 2020.  Áður var kirkjan á forræði Þingeyrarsóknar.

Þá hafa landeigendur í Keldudal lýst því yfir að 460 fermetra lóð sem fylgir kirkjunni sé eignalóð  hennar sjálfrar. Jafnframt hefur verið gengið frá lóðamörkum og að þau séu samkvæmt hnitsettum punktum á lóðablaði.

Ríkiseignir hafa  óskað eftir staðfestingu Ísafjarðarbæjar um eignarhald og lóðarmörk fyrir Hraunskirkju í Keldudal, Dýrafirði og leggur Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar  til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að staðfesta hnitsettan uppdráttinn.

Málið fer nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Á vef Þjóðminjasafnsins eru upplýsingar um kirkjuna.

Hraunskirkja var reist árið 1885. Aðalsteinn Pálsson bóndi í Hrauni sá um smíðina og gaf söfnuðinum húsið. Kirkjan stendur rétt utan við gamla kirkjugarðinn en innan hans hafa eldri kirkjur í Hrauni staðið.

Hún var aflögð sem sóknarkirkja árið 1971 en dalurinn fór í eyði árið 1967. Um tíma stóð til að rífa hana en fyrir tilstuðlan Þjóðminjasafns Íslands var horfið frá því og gagngerar viðgerðir fóru fram á vegum safnsins árin 1998-1999. Hún var tekin aftur í notkun árið 2000 og er í vörslu Þjóðminjasafnsins og er sem fyrr segir nú orðin eign þess.

Í Hraunskirkju eru merkir gripir en m.a. er talið að prédikunarstóllinn sé verk sr. Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði (1692-1742). Altaristöflurnar eru tvær og eru þær hvor upp af annarri. Á þeirri neðri er áletrunin „Eggerd Ionsen A. Røyn 1751“ en óvíst er um aldur þeirrar efri.

 

 

DEILA