Fjórðungsþing: þungar áhyggjur af rekstri sveitarfélaga

Fjórðungsþing Vestfirðinga ræddi á fundi sínum í síðasta mánuði meðal annars um áhrifin af kórónuveirufaraldursins á fjárhag sveitarfélaga. Fyrirsjálegt er að útsvarstekjur sveitarfélaga muni lækka vegna aukins atvinnuleysis og þá munu framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sveitarfélaga lækka verulega samhliða lækkandi skatttekjum ríkissjóðs.

500 milljón króna skerðing

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru árið 2019 frá 18-44% af heildartekjum sveitarfélaga á Vestfjörðum. Mikilvægi þessara framlaga fyrir sveitarfélög sem þegar standa frammi fyrir erfiðleikum við að viðhalda lögbundinni þjónustu er óumdeilt. Upphaflegar áætlanir sveitarfélaganna á Vestfjörðum fyrir árið 2020 gerðu ráð fyrir að framlög Jöfnunarsjóðs næmu tæpum 2,3 milljörðum króna. Boðað hefur verið að þau framlög lækki um tæpar 500 milljónir. Áhrif á sveitarfélög eru mismunandi en skerðing nemur allt að 48% í Vesturbyggð, 46% í Árneshreppi og 30% í Strandabyggð miðað við 1. júní 2020. Augljóst er að erfitt er að bregðast við slíkri ófyrirsjáanlegri skerðingu.

Óskert framlög úr Jöfnunarsjóði

Í ályktun Fjórðungsþingsins um málið segir:

„Fjórðungsþing Vestfirðinga telur því afar brýnt að gripið verði til aðgerða af hálfu ríkisins til að styðja við sveitarfélögin í landinu. Mikilvægast í því samhengi er að standa vörð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og tryggja að framlög hans til sveitarfélaganna skerðist ekki.“

DEILA