ALDREI FÓR ÉG SUÐUR: MUGISON ER NÝR ROKKSTJÓRI

Mugison hefur verið ráðinn sem næsti rokkstjóri Aldrei fór ég suður hátíðarinnar á Ísafirði.

Hann tekur nú við keflinu af vini sínum Kristjáni Frey sem hefur haldið utan um stýrið síðustu fjögur ár.

Mugison, Örn Elías Guðmundsson, er einn stofnenda Aldrei fór ég suður sem efndu til fyrstu tónlistarveislunnar undir þessum formerkjum árið 2004 og fagnar því sautján ára afmælinu næsta vor með 18. hátíðinni (skemmtilegt stærðfræðidæmi!) sem mun fara fram um páskana.

Aldrei fór ég suður var haldin með óhefðbundnu sniði í ár vegna heimsfaraldursins en þótti hátíðarhöldurum takast vel til að bregðast við aðstæðum og búa til skemmtilega dagskrá sem landsmenn gátu fylgst með heim í stofu.

Á hátíðinni í ár komu fram um tuttugu hljómsveitir, tónlistarkonur og -menn úr ýmsum áttum. Helgast hátíðin einna helst að því að teflt er fram landsþekktu tónlistarfólki í bland við hæfileikafólk heiman úr héraði og hafa rúmlega 400 tónlistaratriði stigið á stokk fyrir vestan um páskana frá upphafsárinu.

Meðal þeirra sem komu fram í ár og buðu upp á ógleymanleg framlög voru Eivör, Moses Hightower, Snorri Helga og Saga Garðars, Dóra Wonder, Lay Low og Árný Margrét.

Kristján Freyr mun þó áfram starfa við hlið nýs rokkstjóra, innan Aldrei fór ég suður nefndarinnar, ásamt rokkstjórum fyrri ára og góðum hópi vestfirsks ástríðufólks um tónlistarmenningu.

DEILA