Aðgát skal höfð í nærveru umhverfisráðherra

Undanfarin ár hefur núverandi umhverfisráðherra beitt sér fyrir því að koma í veg fyrir að mörg hagsmunamál Vestfirðinga nái fram að ganga. Mál sem sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum hefur komið sér saman um að geti skipt sköpum í framtíð landshlutans.

Nægir þar að nefna raforkumál, fiskeldismál og vegamál. Skemmst er frá því að segja að núverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, núverandi varaformaður Vinstri grænna, hefur barist af mikilli hörku gegn öllum þessum málum. Fyrst sem framkvæmdastjóri Landverndar hvs (hvs= hryðjuverkasamtök) og síðar sem umhverfisráðherra. Hann hefur m.a. veitt umtalsverðum upphæðum úr ríkissjóði til Landverndar hvs., sem að verulegu leyti hafa farið í málarekstur, til að koma í veg fyrr að mál nái fram að ganga.

Hér má nefna t.d. vegagerð um Teigsskóg (-kjarr) og ofstækisfulla baráttu gegn fiskeldi og virkjun Hvalár. Óhætt er að fullyrða að enginn sé fremri Guðmundi Inga þegar kemur að skemmdarstarfsemi gegn Vestfirðingum.

Það er mörgum ljóst að markmið nokkurra ofstækissamtaka, á borð við Landvernd hvs., er að gera Vestfirðina alla að þjóðgarði. Útsendarar og undirsátar umhverfisráðherrans hamast nú við það að telja fólki trú um nauðsyn þess að friðlýsa heilu landsvæðin, þótt engin ástæða sé til.

Í kvöld (9/11 2020) var viðtal við margnefndan ráðherra þar sem hann boðaði mikla friðlýsingu landsvæða í nágrenni Dynjanda og Vatnsfjarðar. Friðlýsingin mun verða í vor n.k. ef ríkisstjórn og sveitarstjórnarfólk tekur ekki í taumana. Það er ekki undarlegt að ýmsir, sem þekkja feril ráðherrans, telji að með fyrirhugaðri friðlýsingu (Vatnsfjörður – Dynjandi) sé verið að undirbúa málatilbúnað gegn vegarlagningu um Dynjandisheiði og Vatnsfjörð. Sporin hræða.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem á beina aðild að málinu, verður að skoða hvað getur verið í húfi. Það er fáum að treysta og allra síst Guðmundi Inga Guðbrandssyni, þegar hagsmunir Vestfirðinga eru anars vegar.

Magnús Reynir Guðmundsson

f.v. bæjarritari Ísafirði.

DEILA