Vestri: smölum saman í lið

Samúel Samúelsson til vinstri handsalar samning við Ragnar Sigtryggsson f.h. Viðburðastofunnar á Ísafirði

Knattspyrnusamband Íslands hefur tekið ákvörðun um áframhald móta sumarsins í meistaraflokkum. Þó að því tilskyldu að leyfilegt verði að hefja æfingar að nýju þann 4. nóvember. Gangi það eftir hefst mótið í Lengjudeildinni að nýju 7. nóvember. Vestri á eftir tvo leiki í mótinu. Sá fyrri er á Grenivík við lið Magna 7. nóvember og síðasti leikur sumarsins verður á Ísafirði þann 14. nóvember og verður þá leikið við Aftureldingu frá Mosfellsbæ.

Verði hins vegar ekki heimilað að hefja æfingar að nýju þann 4. nóvember verður mótið blásið af og síðustu leikirnir falla niður.

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnudeildar Vestra sagði í samtali við Bæjarins besta að nokkur vandi væri uppi. Erlendir leikmenn Vestra eru farnir heim til sín þar sem samningar þeirra runnu út 15. október. Knattspyrnudeildin vildi ekki framlengja þá vegna kostnaðar. Þá eru margir ungir leikmenn á svæðinu sem gætu spilað þessa leiki ekki gjaldgengir með Vestra þar sem þeim var leyft að leika með Herði á Ísafirði til þess að afla sér reynslu. Þá eru fimm leikmenn Vestra, sem munu væntanlega vera kallaðir til í lokaleikina, fyrir sunnan í vetur og mega ekki æfa þar  vegna æfingabannsins þar. „En við munum smala í lið“ sagði Samúel.

Vestri siglir lygnan sjó um miðja deildina og leikirnir tveir munu ekki hafa áhrif á framtíðarhorfur liðsins, en öðru mál gegnir um lið Magna frá Grenivík. Það er í harðri botnbaráttu og á mikið undir því að geta leikið leikina tvo og náð í stig.

DEILA