Þjóðlendurkröfur settar fram fyrir Ísafjarðarsýslur

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum, á svæði sem er við málsmeðferð nefndarinnar auðkennt sem svæði 10B. Kröfurnar ná til 45 svæða.

Óbyggðanefnd, sem er sjálfstæð úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi, kynnir nú þessar kröfur ríkisins, til að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta svo að þeir geti látið sig málin varða og eftir atvikum lýst kröfum á móti.

Þeir sem telja til eignarréttinda á landsvæðum sem falla innan þjóðlendukröfusvæða íslenska ríkisins hafa nú frest til 1. febrúar 2021 til að lýsa kröfum fyrir óbyggðanefnd. Að því búnu verða heildarkröfur kynntar og óbyggðanefnd rannsakar málin. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu umræddra svæða úrskurðar óbyggðanefnd um fram komnar kröfur.

Víðtæk krafa ríkisins um þjóðlendur

Eins og sjá má af kortinu sem fylgir kröfulýsingu ráðherra gerir ríkið kröfu til þess að stór svæði séu þjóðlenda þar sem búast hefði mátt við að eignarréttur landeigenda væri viðurkenndur.

Í nokkrum kröfulýsingum er þjóðlendukrafa afmörkuð með 200 metra hæðarlínu. Er það gert þar sem

„fyrir liggur að um jörð er að ræða en landamerkjalýsing liggur ekki fyrir, er óljós eða óskýr og ekki hægt að draga beina línu milli þekktra punkta þar sem það myndi leiða til niðurstöðu sem ekki væri hægt með sanngirni eða skynsemi að réttlæta og ekki hægt að finna skýra landfræðilega afmörkun sem hægt var að styðja kröfulínu við. Hæðarlína var þá jafnan valin með hliðsjón af þekktum punkti eða punktum í merkjalýsingu og reynt að miða við landshætti s.s. gróðurfar og landslag.“

eins og segir í kröfulýsingunni.

Sem dæmi má nefna eru jarðirnar Hrafnfjarðareyri, Álfstaðir, Kvíaa, Steig, Steinólfsstaðir,
Bjarnarnes, Smiðjuvík, Barðsvík, Bolungavík og Furufjörður. Þar er kröfusvæðið miðað við 200 m hæðarlínu og að það sem er ofan hennar sé þjóðlenda. Það á einnig við um Marðareyri , Steinólfsstaði og Hesteyrarfjörð.

Grænahlíð og Þorfinnur verði þjóðlenda

Þá er þess krafist að Grænahlíð og fjalllendi vestan Aðalvíkur sé þjóðlenda. Auk þess Almenningar vestari , Hlöðuvík og Hælavík ofan 200 metra hæðarlínu  sem og Höfn, Horn og almenningar eystri.

Þá er gerð krafa um að Gilsbrekkuheiði verði þjóðlenda, Bolfjall og Stigahlíð og fjöllin Þorfinnur, Hestur, Sauratindar, Ernir og Kirkjubólsfjall svo nokkur séu nefnd úr kröfulýsingunni.

 

 

DEILA